[x]
8. maí 2008

Heimsókn orku- og iðnaðarráðherra Tyrklands

Orku- og auðlindaráðherra Tyrklands, Mehmet Hilmi Güler er hér á landi í boði í Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra. Í föruneyti hans eru m.a. Orthan Mertoglu, forseti Jarðhitasambands Tyrklands, og Mustafa Hatipoglu, forseti Miðstöðvar vetnisrannsókna Sameinuðu þjóðanna í Tyrklandi. Tyrkneski ráðherrann heimsótti Orkugarð 7. maí ásamt föruneyti. Þar kynntu fulltrúar ÍSOR, Orkustofnunar, Íslenskrar Nýorku, Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og ENEX starfsemina sína en tyrkneska sendinefndin kynnti orkumál í Tyrklandi. Af hálfu ÍSOR sat Ólafur G. Flóvenz, forstjóri fundinn og kynnti ÍSOR. Ráðherrann var vel upplýstur um orkumálefni og málefni Íslands og lýsti miklum áhuga á frekari samstarfi þjóðanna í orkumálum. Hann lýsti þeirri sýn tyrkneskra stjórnvalda að mæta vaxandi orkuþörf Tyrklands með blöndu af mörgum tegundum endurnýjanlegra orkulinda, svo sem jarðvarma, sólarorku, vindorku, vatnsorku og jafnvel sjávarölduorku. Þá benti hann sérstaklega á þá möguleika sem nú væru að opnast í Tyrklandi fyrir aðila sem vildu fjárfesta í jarðhitavirkjunum og getu Tyrkja til að framleiða vatnsaflshverfla. Gagnlegar umræður og skoðanaskipti fóru framá fundinum. Starfsmenn ÍSOR hafa þegar talsverða reynslu af jarðhitarannsóknum i Tyrklandi, bæði gegnum kennslu tyrkneskra nemenda við Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og gegnum einstök ráðgjafarverkefni á löngu tímabili. Þannig hafa tveir starfsmenn ÍSOR unnið að slíkum verkefnum á þessu ári.Sendinefnd Tyrklands og fulltrúar frá íslensku fyrirtækjunum. Ljósm. Ragna Karlsdóttir.