[x]
13. febrúar 2010

Heimsókn Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra

Iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, heimsótti  ÍSOR í dag og kynnti  sér starfsemina. Í för með henni voru Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri, Guðjón Axel Guðjónsson, skriftstofustjóri orkumála og Ásdís Elva Rögnvaldsdóttir sérfræðingur á skrifstofunni.

Forstjóri ÍSOR, Ólafur G. Flóvenz,  kynnti stofnunina og starfsemi hennar og ræddi m.a. um innviði ÍSOR, viðbrögð við kreppunni og dökkt útlit varðandi uppbyggingu í orkumálum á næstu misserum.  Benti hann m.a. á að veruleg hætta væri á að fjöldi manns sem ynni í orkugeiranum og við tengda starfsemi myndi missa vinnuna á næstu misserum ef ekki fyndist leið út úr vandanum.  Því fylgdi hætta á talsverðum landflótta vísinda- og tæknimanna, enda veruleg atvinnutækifæri fyrir reynt jarðhitafólk í útlöndum. Það gæti síðan leitt til þess að Íslendingar misstu það þekkingarforskot sem þeir enn hafa í jarðhitamálum.

Benedikt Steingrímsson, yfirverkefnisstjóri, kynnti  rannsóknir og þjónustu á sviði jarðhita og viðamikla starfsemi ÍSOR í kennslu og þjálfun jarðhitamanna víða um heim.

Ingibjörg Kaldal, deildarstjóri jarðfræða og umhverfismála, kynnti jarðfræðikortlagningu og grunnvatnsrannsóknir á ÍSOR.  Kom fram hjá henni að ÍSOR væri sá vinnustaður á Íslandi þar sem flestir jarðvísindamenn vinna og nær öll jarðfræðikort sem gefin hefðu verið út á Íslandi væru verk núverandi og fyrrverandi starfsmanna ÍSOR og forvera þeirra. Hún upplýsti einnig að ÍSOR hygðist innan tíðar gefa út nýtt jarðfræðikort af Suðvesturlandi með áherslu á fræðslu fyrir ferðamenn og byggja þannig undir fyrirhugaðan eldfjallagarð á Reykjanesskaga. Þá reifaði hún hinn mikla þátt ÍSOR í rannsóknum á grunnvatni og þjónustu vegna nýtingar þess. Hún furðaði sig á því að lítil áhersla virtist lögð á grunnvatn við undirbúning innleiðingar vatnatilskipunar ESB þótt grunnvatn væri ein meginauðlind Íslands og tilskipunin næði til þess.

Ráðherra hélt síðan ávarp á opnum starfsmannafundi og greindi frá stefnu ríkisstjórnarinnar í orkumálum og áherslum sínum í áframhaldandi uppbyggingu orkuvera  á landinu. Þar kom m.a. fram að hin sterka ímynd Íslands í jarðhitamálum hefði ekki skaðast þótt fjármálaímyndin hefði beðið mikinn hnekki. Jarðhitaþekkingin vær ein af þeim meginstoðum sem við yrðum að byggja endurreisnina á. Katrín lagði jafnframt áherslu á að æskilegt væri að breyta um stefnu í málefnum orkuiðnaðar þannig að minni áhersla yrði lögð á stóriðju en aukin áhersla á að laða hingað minni og fjölbreyttari fyrirtæki sem vildu kaupa umhverfisvæna orku úr endurnýjanlegum orkulindum okkar.

Þá kom fram í máli ráðherra að verið væri að leita leiða til að koma áfram rannsóknum á jarðhitasvæðum Þingeyjarsýslu. Kæmi til greina að stofna sérstakt félag sem tæki til virkjana á öllu svæðinu, þ.e. í  Kröflu, Bjarnarflagi og á Þeistareykjum.

Að lokum svaraði ráðherra spurningum starfsmanna um ýmis mikilvæg mál tengd framþróun orkumála í landinu.

Guðrún Helga Brynleifsdóttir stjórnarformaður ÍSOR, Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Ólafur G. Flóvenz forstjóri ÍSOR.

Guðrún Helga Brynleifsdóttir stjórnarformaður ÍSOR, Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Ólafur G. Flóvenz forstjóri ÍSOR.