[x]
21. ágúst 2007

Halldór Ármannsson kosinn formaður framkvæmdanefndar Water Rock alþjóðaþingsins.

Halldór Ármannsson til hægri á myndinni.Tólfta alþjóðlega þingið um samspil vatns og bergs (The 12th International Symposium on Water-Rock Interaction, WRI-12) var haldið í Kunming, Kína dagana 1. – 5. ágúst s.l. Þáttakendur voru um 380 auk samferðamanna  ráðstefnugesta. Auk þess var boðið upp á 3 þriggja daga merkurferðir 6. – 9. ágúst.
Halldór Ármannsson og Hjalti Franzson frá ÍSOR sóttu þingið og flutti Halldór erindið „CO2 budget of the Krafla geothermal system, NE Iceland“ en Hjalti sýndi veggspjaldið „Temperature and salinity changes in three high-temperature systems at Reykjanes peninsula, SW Iceland: Evidence from fluid inclusions.“

Þing þessi heldur „Working group on Water-Rock Interaction“ sem er vinnuhópur innan samtakanna „International Association of Geochemistry (IAGC).“ Framkvæmdanefnd (Executive Committe) hópsins mynda aðalritarar (Secretary-Generals) fyrri þinga, en á aðalfundi hópsins, sem haldinn er í tengslum við hvert þing sem er á þriggja ára fresti, er kosinn formaður (Chairman) framkvæmdanefndarinnar. Á aðalfundinum í ár var Halldór Ármannsson kosinn formaður framkvæmdanefndarinnar en hann var aðalritari WRI-5 sem haldið var á Íslandi 1986. Reiknað er með að hann sitji í formannssætinu í 6 ár og hafi hönd í bagga með skipulagningu tveggja þinga. Á meðfylgjandi mynd má sjá fráfarandi formann framkvæmdanefndarinnar Yousif Kharaka frá USGS og Halldór þar sem hann skýrir frá stefnumiðum eftir að hafa verið kosinn. Á aðalfundinum var samþykkt að stefnt yrði að því að halda WRI-13 árið 2010 í Guanajuato, Mexíkó og verður aðalritari Thomas Kretsdchmar.

Auk Halldórs og Hjalta sóttu 4 ráðstefnugestir og 3 makar frá Íslandi Kunming heim, og tók allur sá hópur þátt í sömu merkurferðinni sem var sigling um Gljúfrin þrjú þar sem verið er að byggja stærsta vatnsorkuver heims og var fjallað um nokkur vandamál tengd þeirri framkvæmd.