[x]
7. nóvember 2006

Halldór Ármannsson kjörinn formaður WRI

Halldór Ármannson, efnafræðingur og einn helsti sérfræðingur ÍSOR í jarðefnafræði og umhverfismálum hefur verið valinn til að gegna formennsku í WRI, alþjóðasamtökum um samspil vatns og bergs. WRI, sem er skammstöfun fyrir "The Water-Rock Interaction interest group", hefur starfað innan vébanda Alþjóðasambands jarðefnafræðinga (IAGC, International Association of GeoChemistry) síðan 1971. Hefur starfsemi hópsins aðallega lotið að ráðstefnuhaldi.  Um er að ræða stórar alþjóðlegar ráðstefnur um samspil vatns og bergs sem haldnar eru á þriggja ára fresti. Sú fyrsta var haldin í Tékkóslóvakíu 1974 en sú næsta verður í Kunming, Kína árið 2007. Fyrrverandi aðalritarar ráðstefna mynda framkvæmdanefnd WRI, sem sér um langtímastarf, svo sem val á ráðstefnustöðum og samband við ráðstefnuhaldara hverju sinni. Skipulag hverrar ráðstefnu er að mestu í höndum heimamanna. Nefndin velur formann  úr sínum hópi, sem sér um öll tengsl innan og utan hópsins. Sú hefð hefur myndast að hver formaður starfi yfir tímabil sem tekur til tveggja ráðstefna, eða í 6 ár. Núverandi formaður, Yousif Kharaka frá bandarísku jarðfræðistofnuninni (USGS), hættir á næsta ári og hefur Halldór Ármannsson, sem var aðalritari þegar WRI ráðstefna var haldin á Íslandi 1986, verið kjörinn formaður í hans stað. Orkustofnun hefur tekið að sér að sjá að hluta um kostnað við þetta starf Halldórs enda um almenna þátttöku að ræða í alþjóðlegu starfi fyrir hönd íslenskra vísindamanna, sem mikilvægt er fyrir grunnrannsóknir í jarðhitafræðum.