[x]
22. ágúst 2006

Halla- og stefnumælingar í borholum

ÍSOR hefur gert sérstakan þjónustusamning við Jarðboranir hf. um að annast halla- og stefnumælingar í borholum á Íslandi. Með honum er aukin sú þjónusta sem ÍSOR hefur veitt þeim fram til þessa. Ljóst er að veruleg aukning verður á borunum á háhitasvæðum landsins þar sem borstrengnum er stýrt nákvæmlega í fyrirfram ákveðna stefnu og ákveðið dýpi í stað þess að borað sé lóðrétt niður. Kostur þess að geta stýrt stefnu borkrónunnar/strengsins er sá að hægt er að skera sprungur og berg með mikill nákvæmni. Umhverfisáhrif vegna borframkvæmda minnka einnig verulega þar sem hægt er að bora margar holur út frá einum og sama borteignum. Mælitækin sem pöntuð hafa verið til að framkvæma mælingarnar flokkast sem svonefnd „True North Finding“ tæki á ensku og þurfa ekki fast viðmið á yfirborði til ákvörðunar á staðsetningu, stefnu og halla í borholu. Um er að ræða mælitæki sem gefa frá sér samfellda mælingu í rauntíma þannig að hægt er að fylgjast með mæligildunum á yfirborðstæki í sérútbúnum mælingabílum ÍSOR og koma þeim jafnóðum til þeirra sem stjórna borverkinu. Stefnt er því að fyrstu mælingarnar fari fram í október nk. og samkvæmt þjónustusamningnum skuldbindur ÍSOR sig til að a.m.k. sex starfsmenn geti sinnt mælingunum.