[x]
29. janúar 2007

Halla- og stefnumælingar í borholum

Myndin sýnir að borholan er nánast lóðrétt frá yfirborði og niður í u.þ.b. 850 m dýpi en þar var byrjað að byggja upp halla. Á 1200 m dýpi er hallinn orðinn 30 gráður eins og að var stefnt. Á dýptarbilinu frá 1200 til 2200 m er hallanum haldið nálægt 30 gráðum.ÍSOR hefur gert þjónustusamning við Jarðboranir hf. um að annast framvegis  halla- og stefnumælingar í borholum á Íslandi og var fyrsta mælingin á því sviði framkvæmd í holu RN-14 á Reykjanesi þann 9. janúar sl. Þessar mælingar hafa hingað til verið í höndum Baker-Huges fyrirtækisins sem notið hefur aðstoðar ÍSOR við framkvæmd þeirra.

Ljóst er að veruleg aukning verður á borunum á háhitasvæðum landsins þar sem borstrengnum er stýrt í fyrirfram ákveðna stefnu og dýpi í stað þess að borað sé lóðrétt niður. Kostur þess að geta stýrt stefnu borkrónunnar/strengsins á þennan hátt er sá að þá er hægt að skera sprungur og jarðlög af mikill nákvæmni. Umhverfisáhrif vegna borframkvæmda minnka einnig verulega þar sem hægt er að bora margar holur út frá einum og sama borteignum.

Tækjabúnaðurinn sem ÍSOR hefur fest kaup á er frá þýska fyrirtækinu System Entwicklungs GmbH (SEG) og hélt fulltrúi þess kynningu á búnaðinum um miðjan janúar, sem og námskeið fyrir þá starfsmenn ÍSOR sem koma til með að framkvæma mælingarnar. Þessi mælitæki flokkast sem svonefnd „True North Finding“ tæki og þurfa ekki fast viðmið á yfirborði til ákvörðunar á staðsetningu, stefnu og halla í borholu. Mælitækin gefa frá sér samfellda mælingu í rauntíma þannig að hægt er að fylgjast með mæligildunum á yfirborðstæki í sérútbúnum mælingabílum ÍSOR og koma þeim jafnóðum til þeirra sem stjórna borverkinu.

Mælingar hafa nú þegar verið gerðar í þremur borholum og hafa niðurstöður þeirra verið góðar.
Niðurstöður úr fyrstu mælingunni í RN-14 á Reykjanesi má sjá á myndum sem fylgja hér til hliðar.