[x]
24. ágúst 2015

Gunnar Þorbergsson látinn

Gunnar Þorbergsson.Gunnar Þorbergsson, fyrrum starfsmaður Rannsóknasviðs Orkustofnunar, forvera ÍSOR er látinn 85 ára að aldri.

Gunnar fæddist í Hafnarfirði 7. nóvember 1929 en ólst upp í Keflavík. Hann lauk gagnfræðaprófi frá MA 1947 og stundaði nám þar í stærðfræðideild í tvö ár. Hann var m.a. formaður skákfélagsins og í stjórn íþróttafélagsins þar. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1950 og stundaði umskeið nám í rafmagnsverkfræði í Gautaborg.
Árið 1952 kom Gunnar, þá 22 ára gamall, til starfa við landmælingar hjá embætti Raforkumálastjóra, sem síðar varð Orkustofnun. Þá hafði embættið í fáein ár fengist við landmælingar til undirbúnings virkjunar vatnsfalla. Sú starfsemi óx og dafnaði hröðum skrefum á næstu árum og áratugum undir stjórn Gunnars sem forstöðumanns Landmælinga Orkustofnunar. Hafist var handa við umfangsmikla kortlagningu landsins í mælikvarða 1:20.000 með 5 metra hæðarlínum og sérkort í enn nákvæmari mælikvarða. Eldri kort voru byggð á takmörkuðum mælingum og höfðu einungis 20 metra hæðarlínur sem nægði ekki fyrir áætlanir um vatnsaflsvirkjanir. Undir lok aldarinnar hafði Gunnari og samstarfsfólki tekist að mæla um þriðjung landsins og gera kort af fjórðungi þess, einkum inn til landsins.  Þessar umfangsmiklu landmælingar voru krefjandi vinna sem krafðist mikillar nákvæmni og alúðar jafnframt því sem fara þurfti torsóttar leiðir á öræfum til mælinganna. Notaði Gunnar þá meðal annars þyrlur þar sem erfiðast var að komast að.

Jafnframt þessu bar Gunnar hitann og þungann af þyngdarmælingum landsins en þær eru snar þáttur landmælinga ásamt því að veita mikilvægar jarðfræðilegar upplýsingar. Þegar jarðhitavinnsla hófst fyrir alvöru á háhitasvæðum landsins bættust hæðar- og þyngdarmælingar þar við starfssvið Gunnars.

Gunnar Þorbergsson við landmælingar við Grímsvötn. Gunnar var alla tíð í fararbroddi í tækninýjungum við landmælingar og úrvinnslu þeirra. Hann hóf snemma að nota loftmyndir við kortagerðina og var meðal þeirra fyrstu á landinu sem notuðu tölvur til útreikninga. Hann forritaði alla tíð þann hugbúnað sem Orkustofnun notaði til landmælinga og þyngdarmælinga. Gunnar skrifaði fyrstu forritin til þess árið 1965, árið eftir að fyrsta IBM tölva Háskóla Íslands kom til landsins. Þá voru forritin og gögn skráð á á gataspjöld. Þannig varð Gunnar einn af frumkvöðlum í notkun tölvutækni á Íslandi. Eftir Gunnar liggja á annað hundrað skýrslur og greinar. Þrátt fyrir að hann ætti við erfið veikindi að stríða síðustu árin var hann við störf í forritun fram til dánardags og birti meðal annars grein í alþjóðlegu vísindatímariti árið 2009 um fyrstu notkun tölva við leiðréttingar á þríhyrningamælingum á Íslandi.

Gunnar var hæglátur maður og hógvær. Hann var fámáll og talaði lágum rómi en af þeirri þekkingu og því viti sem fékk fólk til að hlusta. Hann gumaði aldrei af verkum sínum sem þó eru gríðarmikil að vöxtum. Hann var að mestu leyti sjálfmenntaður í landmælingafræðum en varð þó leiðandi sérfræðingur í landmælingum á Íslandi um áratuga skeið. Eftir hann liggur ómetanlegt ævistarf í þágu íslenskra orkumála og landmælinga.  Við hugsum með hlýju og þakklæti til þessa mikla frumkvöðuls í landmælingum á Íslandi.