[x]
1. desemeber 2006

Guðmundur Böðvarsson látinn

Guðmundur Böðvarsson forstöðumaður jarðvísindasviðs Lawrence Berkeley National Laboratory (LBL) í Berkeley í Kaliforníu lést þann 29. nóvember s.l. aðeins 54 ára að aldri, eftir stutta sjúkrahúslegu. Guðmundur og verk hans voru vel þekkt í jarðhitaheiminum, einkum var hann frumkvöðull í þróun aðferða til líkanreikninga fyrir jarðhitakerfi. Slíkir reikningar eru nú orðnir eitt mikilvægasta verkfærið við rannsókn og rekstur jarðhitakerfa. Guðmundur stundaði nám í stærðfræði, eðlisfræði og byggingaverkfræði í Norður-Karólínu á árunum 1972-1976 og lauk síðan doktorsprófi í vatnajarðfræði (hydrogeology) frá Berkeley-háskóla 1982. Í doktorsnáminu sérhæfði hann sig í forðafræði jarðhitans, einkum líkanreikningum. Að námi loknu hóf Guðmundur störf á LBL þar sem hann starfaði að líkanreikningum og öðrum jarðhitarannsóknum. Í nokkur ár stjórnaði Guðmundur stórum vinnuhóp sem rannsakaði geymslu geislavirks úrgangs neðanjarðar undir Yucca-fjalli í Nevada, m.a. með gríðarlega umfangsmiklu og flóknu reiknilíkani. Frá árinu 2001 var Guðmundur síðan forstöðumaður jarðvísindasviðs LBL. Guðmundur starfaði alla tíð í Bandaríkjunum en vann jafnframt að jarðhitaverkefnum um allan heim. Þar með talin eru verkefni á Íslandi, sem hann vann í samvinnu við íslenska samstarfsmenn, þar á meðal vísindamenn á ÍSOR og Orkustofnun. Má þar nefna líkanreikninga fyrir jarðhitakerfin í Kröflu og á Nesjavöllum, sem telja verður brautryðjandaverk. Á heimasíðu LBL má finna nánari upplýsingar um feril Guðmundar og minningarorð samstarfsmanna hans á LBL http://www.lbl.gov/Science-Articles/Archive/ESD-Bodvarsson-obit.html Guðmundur Böðvarsson var þekktur fyrir atorku sína og yfirburðahæfni og hans verður sárt saknað. Íslenskar orkurannsóknir þakka Guðmundi samvinnuna í gegnum tíðina og senda sonum hans tveimur og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur