[x]
30. apríl 2009

Greinargerð um landgrunn Íslands

Þann 29. apríl var afhent í New York til Sameinuðu þjóðanna greinargerð Íslands um landgrunn utan 200 M (sjá fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu).

Undirbúningur greinargerðarinnar hófst árið 2000, en tæknileg úrvinnsla hefur verið í höndum ÍSOR. Þeir sem hafa borið þungann af þeirri vinnu eru Bjarni Richter, Freysteinn Sigmundsson, Gunnlaugur M. Einarsson, Hjálmar Eysteinsson, Kristján Ágústsson, Steinar Þór Guðlaugsson sem stýrði verkinu fyrri hluta tímabilsins og Sigvaldi Thordarson sem stýrði verkinu seinni hluta þess.

Afmörkun landgrunnsins byggir að mestu á túlkun dýptargagna og var af þeim sökum farið út í umfangsmiklar fjölgeisla hljóðendurvarpsmælingar (multi-beam echo soundings). Þessar mælingar voru framkvæmdar af Hafrannsóknarstofnun, en rannsóknaskipið Árni Friðriksson RE 200 gerði þær og skilaði fyrsta flokks gögnum. Að auki var stuðst við dýptargögn sem fengin voru úr opnum gagnagrunnum. Framhaldsúrvinnsla dýptargagna var unnin af sérfræðingum á ÍSOR.

Á ÍSOR voru þróaðar nýstárlegar aðferðir til að greina í sundur helstu þætti landgrunnsins, þ.e. grunnið, hlíðina, hlíðardrögin og djúpsævisbotninn, en greiningin endar með ákvörðun á hlíðarfætinum. Frá hlíðarfætinum eru síðan útmörk landgrunnsins reiknuð sem 60 M samhangandi hringbogar. 

Skýringarmynd fyrir landgrunn Íslands.

Greinargerðin sem nú var skilað, nær ekki til eystri hluta Reykjaneshryggjar né Hatton Rockall-svæðisins, en unnið verður að afmörkun þessara svæða á næstu misserum.
Hægt er að nálgast hinn opinbera hluta greinargerðarinnar hér, (Executive Summary).