[x]
19. júlí 2017

Góður árangur við heitavatnsöflun við Hoffell í Hornafirði

Borun fjórðu rannsóknarholunnar við Hoffelli í Hornarfirði er nú lokið og allt stefnir í góðan árangur. ÍSOR hefur á undanförnum árum leitað að jarðhita og séð um rannsóknir á svæðinu fyrir RARIK. Ræktunarsamband Flóa og Skeiða hefur séð um borunina við Hoffell. Þann 14. júlí lauk borun holunnar HF-4. Borholan varð 1750 m djúp. Eftir stutta afkastamælingu (þrepadælingu) í borlok virðist holan geta gefið allt að 50 L/s af um og yfir 80°C heitu vatni við 120 m niðurdrátt. Frekari upplýsingar um afköst holunnar munu síðan fást í langtíma prófun með djúpdælu.

Áður hafa verið boraðar þrjár djúpar vinnslu-/rannsóknarholur auk fjölda hitastigulsholna og hafa þær allar verið boraðar af Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða. Hola HF-2 gaf ekki vatn en holur HF-1 og HF-3 hittu á vatnsæðar og gefa vatn; hola HF-3 mun meira en HF-1.

Staðsetning holu HF-4 var m.a. ákveðin út frá því módeli að aðaluppstreymi jarðhitavatns á svæðinu sé um sprungur með NA-SV strikstefnu og að þeim halli flestum til SA. Henni var ætlað meðal annars að skera sprungur sem komu fram á 270-280 m dýpi í skáholu ASK-129 sem er 50 m norðar. Þær voru greindar með holusjá en túlkanir á holusjármælingum í Hoffelli hafa gegnt veigamiklu hlutverki í því hvernig til hefur tekist undanfarin ár í borunum á svæðinu. Þær upplýsingar sem fást út úr þessum mælingum hjálpa til við að staðsetja lóðréttar vinnsluholur með meiri nákvæmni en ella og auka þannig líkurnar á að holurnar hitti á vatnsgæfar sprungur í jarðhitakerfinu.  Í stórum dráttum gekk þetta allt eftir með HF-4. Æðar komu inn í holuna á því bili sem búist var við þeim, á 800-1200 m dýpi. Þær voru þó ekki mjög vatnsgæfar og var borun því haldið áfram. Fleiri æðar héldu áfram að koma inn alveg niður á 1690 m dýpi og var holan blásin nokkrum sinnum á meðan á borun stóð ásamt því  að vera hitamæld. Blástursprófanirnar bentu til að meira vatn hefði komið inn eftir því sem dýpra var farið og að holan væri ekki að fara útúr eða fjarlægjast jarðhitakerfið. Helstu innrennslisæðar í HF-4 virðast vera á 1160 m, 1315 m, 1470 m og 1650-1690 m dýpi. Mjög líklega eru æðarnar á 1650-1690 m dýpi að skila allt að helmingi vatnsins inn í holuna og er hitinn þar um 83°C. Það er um 7-10°C meiri hiti heldur en fengist hefur úr hinum vinnsluholunum og þykir benda til að HF-4 sé nær meginuppstreymi jarðhitakerfisins og að það teygi sig talsvert lengra norðaustur frá Hoffelli.

Á undanförnum árum hefur ÍSOR unnið að jarðhitaleit við Hoffell í Hornafirði fyrir RARIK með það að markmiði að finna heitt vatn fyrir hitaveitu á Höfn. Áður unnu Jarðfræðistofan Stapi og Orkustofnun að jarðhitaleit við Hoffell. Eftir að ÍSOR tók við rannsóknum á svæðinu kom fljótlega í ljós að jarðhitakerfið við Hoffell var flóknara en talið hafði verið. Jarðlaga- og holusjármælingar í völdum borholum á svæðinu studdu það og breyttu þeim hugmyndum sem menn höfðu áður haft um jarðhitakerfið og sprungur þess.
Mynd tekin við enda svarfspytts. Fyrir miðri mynd sést hvar vatnið rennur frá karinu og ofan í pyttinn. Á meðan þrepaprófinu stóð var mælingabíll ÍSOR með hita- og þrýstimæli á 400 m dýpi í holunni og skráði allar breytingar á hita og vatnsborði í henni. Ljósmynd Heimir Ingimarsson.
Mynd tekin við enda svarfspytts. Fyrir miðri mynd sést hvar vatnið rennur frá karinu og ofan í pyttinn. Á meðan þrepaprófinu stóð var mælingabíll ÍSOR með hita- og þrýstimæli á 400 m dýpi í holunni og skráði allar breytingar á hita og vatnsborði í henni. Ljósmynd Heimir Ingimarsson.

Samband niðurdráttar (vatnsborðs, m) og úrdælingar (L/s) í stuttum blástursprófunum úr holum HF-3 og HF-4. Ljósmyndir frá blástursprófun Samband niðurdráttar (vatnsborðs, m) og úrdælingar (L/s) í stuttum blástursprófunum úr holum HF-3 og HF-4. Graf ÍSOR.

 Fyrir þrepapróf. Ljósmynd Heimir Ingimarsson.

Áður en þrepapróf hófst var komið fyrir svokölluðum „Óskar“ sem er einskonar hringlaga vatnsdempari frá afrennslislögn holunnar. Hann tekur á sig mesta gusuganginn af vatninu. Kar með v-laga yfirfalli var síðan sett ofan í pytt fyrir neðan demparann til að mæla rennsli vatnsins frá holunni. Ljósmynd Heimir Ingimarsson.