[x]
19. desemeber 2018

Góður árangur við borun nýrrar vinnsluholu í Ósabotnum


Ósabotnar norðaustan við Selfoss.

Selfossveitur eru að láta bora nýja heitavatnsholu, ÓS-4, í Ósabotnum, norðaustan við Selfoss. Nýja vinnsluholan er nú orðin 1850 m djúp. Stefnt er að því að bora í ríflega 2000 m dýpi.

Ræktunarsamband Flóa og Skeiða borar nýju holuna með jarðbornum Sleipni. Borun og öll vinna virðist hafa tekist með ágætum, þrátt fyrir mikinn vatnsaga. Fyrst varð vatns vart á um 1000 m dýpi og það jókst jafnt og þétt eftir því sem dýpra var borað og er nú áætlað að 100 l/s fáist úr holunni með hóflegum niðurdrætti vatnsborðsins. Holan hefur ekki enn náð að hitna til fulls en reiknað er með að hitinn verði allt að 85–90°C. Nánari afkastamæling verður gerð eftir jól þegar endanlegu dýpi hefur verið náð.

ÍSOR staðsetti þessa nýju vinnsluholu samkvæmt sprungumælingum úr nærliggjandi rannsóknarholu, HT-27. Við borun á þeirri holu sást greinilega, með holusjá, hvar borinn skar sprungu á litlu dýpi. Út frá stefnu sprungunnar og halla var hin nýja vinnsluhola, ÓS-4, staðsett með það að markmiði að skera hana á um 1000 m dýpi.

Samkvæmt Heimi Ingimarssyni jarðfræðingi hjá ÍSOR, sem haft hefur eftirlit með þessu borverki, gekk þetta allt eftir í stórum dráttum og er talið vera til marks um að greining á sprungum með holusjá muni hér verða beitt í auknum mæli framvegis. Þessar mælingar hafa gagnast vel síðan þeim var markvisst beitt við staðsetningu borholna við Hoffell í Hornafirði og einnig við leit að jarðhita innan bæjar á Selfossi.
Við Ósabotna eru fyrir þrjár vinnsluholur sem gefa samtals meira en 100 l/s en með tilkomu nýju holunnar mun fáanlegt vatn þar aukast verulega.

Við hjá ÍSOR óskum Selfyssingum til hamingju með árangurinn og vonum að hið ört stækkandi sveitarfélag nái að ylja íbúum sínum um nána framtíð með þessari viðbót.

Jarðborinn Sleipnir á borstað holu ÓS-4 í Ósabotnum. Ljósmynd Sveinn Óðinn Ingimarsson.

 

Jarðborinn Sleipnir á borstað holu ÓS-4 í Ósabotnum. Ljósmynd Sveinn Óðinn Ingimarsson, Ræktunarsamband Flóa og Skeiða.