[x]
18. janúar 2016

Góður árangur ÍSOR í styrkumsóknum til Evrópusambandsins

Íslenskar orkurannsóknir, ÍSOR, áttu aðild að fimm umsóknum til rannsóknaráætlunar Evrópusambandsins, Horizon 2020, á síðasta ári. Nýverið voru fjórar af þessum umsóknum samþykktar sem verður að teljast mjög góður árangur í styrkumsóknum. Fimmta umsóknin náði lágmarkseinkunn en náði ekki inn í forgangsröðun verkefna. Almennt er talið að dæmigert árangurshlutafall í styrkumsóknum til ESB sé um 15-30% í Horizon 2020 en ÍSOR fékk hér 80% umsókna sinna samþykkt.

Til stendur m.a. að þróa aðferðir við hita- og spennumælingar í borholum með ljósleiðaratækni til að fylgjast með ástandi borholna til lengri tíma. Ljósmynd Jón Ragnarsson.Hér er um að ræða fjögur evrópsk rannsóknar- og þróunarverkefni sem unnið verður að næstu fjögur árin, 2016-2019. Að þeim standa aðilar frá 31 stofnun, háskólum eða orku- og rannsóknarfyrirtækjum víðsvegar um Evrópu, frá 13 Evrópulöndum. Íslensku aðilarnir eru auk ÍSOR, HS Orka, Landsvirkjun og jarðvarmaklasinn GEORG. Styrkir Evrópusambandsins til ÍSOR í þessum fjórum verkefnum munu veita um 8 sérfræðingum og framhaldsnemum vinnu næstu 4 árin auk þess að greiða ýmsan kostnað ÍSOR í tengslum við verkefnin.

Rannsóknarverkefnin og þessir styrkir eru mikill fengur og gefur sérfræðingum ÍSOR og orkufyrirtækjum möguleika á að vinna í samstarfi við helstu rannsóknarstofnanir á sviði jarðhita í heiminum. Nú gefst tækifæri til að ráða og þjálfa ungt fólk til starfa í áhugaverð rannsóknar- og þróunarverkefni í mun meira mæli en áður hefur þekkst en ákveðin biðstaða hefur verið varðandi jarðhitarannsóknir hér á landi síðustu ár. ÍSOR hefur nú þegar auglýst sjö störf sem tengjast með einum eða öðrum hætti þessum verkefnum og verið er að ganga frá ráðningum í þau störf.

Rannsóknarverkefnin fjögur sem um ræðir snúast að miklu leyti um vinnslutæknileg atriði, s.s. djúpborun, hönnun og frágang borholna, bortækni og örvun borholna. Þá er mikil áhersla lögð á efnisval og að þróa aðferðir við að nýta jarðhita úr djúpum borholum. ÍSOR er, eins og fyrr segir aðili að öllum fjórum verkefnunum og veitir jafnframt einu þeirra forystu. Nánar er fjallað um verkefnin hér að neðan og á vef ÍSOR.

DEEPEGS – Deployment of deep enhanced geothermal systems for sustainable energy business

Markmið verkefnisins er að bora dýpra í jarðhitasvæðin, allt niður á 4-5 km dýpi, og athuga möguleikana á að nýta orkuna af mun meira dýpi en áður hefur verið gert. Þrjú svæði verða notuð til athugunar, háhitasvæðið á Reykjanesi og jarðhitasvæðin í Valence og Vistrenque í Frakklandi.
Á Reykjanesi er fyrirhugað að 2,5 km djúp vinnsluhola verði hreinsuð, fóðruð með steyptri stálfóðringu niður fyrir 3 km og svo dýpkuð í 4-5 km. Tilgangur með verkefninu er að sýna fram á að framleiða megi orku úr djúplægum jarðhitakerfum sem örvuð eru með hjálparaðgerðum af einhverju tagi. Athugaðir verða tveir möguleikar. Í fyrsta lagi að nýta gufu úr holunni beint fyrir Reykjanesvirkjun. Í öðru lagi að nýta borholuna sem niðurdælingarholu, dæla köldu vatni niður í 4-5 km og nýta hita bergsins þar til að auka framleiðslugetu svæðisins úr núverandi vinnsluholum sem ná niður á 2-3 km dýpi. Stór hluti verkefnisins felst í að auka lekt bergsins frá þessu dýpi upp að núverandi vinnsludýpi svæðisins.

Þátttakendur í verkefninu eru HS Orka, sem fer með verkefnisstjórn, ÍSOR, Landsvirkjun, jarðhitaklasinn GEORG, BRGM (Jarðfræði- og námastofnun Frakklands), Fonroche Geothermie (Frakklandi), Statoil (Noregi), Herrenknecht Vertical (Þýskalandi), ENEL Green Power (Ítalíu) og Tækniháskólinn í Karlsruhe (Þýskalandi).

GEOWELL - Innovative materials and designs for long-life high-temperature geothermal wells

Verkefnið miðar að því að þróa áreiðanlegar, hagkvæmar og umhverfisvænar aðferðir við hönnun, frágang og eftirlit með háhitaborholum. Með því móti er ætlunin að hraða þróun jarðhitanýtingar á heimsvísu. GeoWell mun fjalla sérstaklega um tækni sem varðar steypugerð og aðferðir við steypingu fóðringa, efnisval þeirra og samsetningu með tilliti til varmaþenslu. Auk þess verða þróaðar aðferðir við hita- og spennumælingar í borholum með ljósleiðaratækni til að fylgjast með ástandi borholna til lengri tíma. Einnig verða þróaðar aðferðir við áhættugreiningu í tengslum við hönnun og rekstur á háhitaborholum.
Rannsóknirnar ná til hefðbundinna vinnsluholna sem og dýpri borholna þar sem þrýstingur er allt að 150 bör og hiti yfir 400°C. Þessi nýja tækni verður prófuð á tilraunastofum þar sem líkt verður eftir raunverulegum aðstæðum og einnig að hluta til í holum sem þegar hafa verið boraðar.

Þátttakendur í verkefninu eru auk ÍSOR, sem fer með verkefnisstjórn, rannsóknarstofnanirnar IRIS í Noregi, GFZ í Þýskalandi, TNO í Hollandi og BRGM í Frakklandi, og fyrirtækin Statoil í Noregi, HS Orka á Íslandi og Akiet BV í Hollandi.

SURE - Novel Productivity Enhancement Concept for a Sustainable Utilization of a Geothermal Resource

Markmið verkefnisins er að nýta bortækni til að örva borholur sem ekki skila þeim afköstum sem að var stefnt við hefðbundna borun.
Stuðst verður við tækni sem þróuð hefur verið í olíu- og gasiðnaði og felst í því að boraðar eru allt að 100 m grannar holur lárétt, eða skáhallt út úr hefðbundinni borholu. Notast er við háþrýst vatn til borunar en einnig verður skoðað hvort nýting loftbólna í vatninu geti skilað auknum árangri.

Rannsóknarsvæðin eru á Íslandi, þar sem ein hola verður örvuð, og í Hollandi þar sem tvær holur verða örvaðar. Holurnar verða afkastamældar fyrir og eftir örvun og síðan verður fylgst með þeim til staðfestingar á að örvunin hafi skilað varanlegri aukningu á afköstum.

Samstarfsaðilar ÍSOR í verkefninu eru rannsóknarstofnanirnar TNO í Hollandi og GFZ í Þýskalandi, sem stýrir verkinu, Tækniháskólinn í Delft í Hollandi, Hochschule Bochum í Þýskalandi, Wellservices í Hollandi, Imperial Collage of Science Technology and Medicine í Bretlandi, Geoterma UAB í Litháen og Gamtos tyrimu centras í Litháen.

CHPM2030 - Combined Heat, Power and Metal extraction from ultra-deep ore bodies

Markmið verkefnisins er að þróa og aðlaga tækni sem gerir orkuvinnslu mögulega samhliða vinnslu málma og annarra verðmæta úr jarðhitavökva. Með þessari tækni er vonast til að hægt verði að auka arðsemi og bæta nýtingu jarðhitasvæða í Evrópu. Skoðað verður sérstaklega hvernig þetta getur gengið við vinnslu úr djúpum borholum.

Auk ÍSOR taka þátt í verkefninu, Miskolci Egyetem (Ungverjalandi), Szegedi Tudományegyetem (Ungverjalandi), Fédération Européenne des Géologues - FEG (Frakklandi), Natural Environment Research Council - NERC (Bretlandi), Laboratorio Nacional de Energia e Geologia I.P. (Portúgal), Vlaamse Instelling voor Technologisch Onderzoek - VITO (Belgíu), La Palma Research Centre for Future Studies (Spáni), Guenter Tiess (Austurríki), Institutul Geologic al Romaniei (Rúmeníu), Katholieke Universiteit Lueven (Belgíu) og Sveriges Geologiska Undersökning (Svíþjóð).