[x]
14. febrúar 2006

Góður árangur í borun í Grábrókarhrauni

Ný vatnshola var boruð í Grábrókarhraun fimmtudaginn 2. febrúar 2006. Holan heitir GB-13 og er 30 m djúp. Hún var boruð með jarðbornum Karli Gústaf frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða (sjá mynd). Í Grábrókarhrauni voru fyrir tvær vinnsluholur Vatnsveitunnar í Borgarfirði, GB-10 og GB-12. Vatnsveitan verður fljótlega tekin í notkun en nú á þorranum er unnið við að leggja vatnsleiðslu frá svæðinu og niður í Borgarnes. Mesta sólarhringsnotkun er áætluð um 40 l/s eftir að veitan fer í gang en 62 l/s eftir 10 ár, 69 l/s eftir 20 ár og 77 l/s eftir 30 ár. Holan heppnaðist afar vel og gefur mikið vatn með tiltölulega litlum niðurdrætti á vatnsborði. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum mætti vinna meira vatn úr þessari einu holu en hinar tvær gefa sameiginlega. Þessi nýja hola fer einnig langt með að anna allri vatnsþörf veitunnar næstu 30 árin. Starfsmenn ÍSOR eru ráðgjafar OR í verkinu.