[x]
14. ágúst 2008

Góður árangur af borun á Kópsvatni í Hrunamannahreppi

Saga, bor Jarðborana, hefir lokið við borun 1500 m djúprar holu í mynni Borgardals á Kópsvatni. Holan er boruð fyrir Hitaveitu Flúða. Borunin gekk mjög vel og árangur er afskaplega góður. Við fyrstu prófanir á holunni fengust um og yfir 70 l/sek af 110°C heitu vatni. Holan er með bestu lághitaholum sem boraðar hafa verið. 

Fyrir nokkrum áratugum fann Guðmundur heitinn Jónsson, bóndi á Kópsvatni, volgrur í kjaftinum á svonefndum Borgardal. Ekki voru menn þá trúaðir á að þar væri mikið að hafa. Við könnun á staðnum kom í ljós að þar seytlaði volgt vatn upp á nokkrum stöðum og var það heitast innan við 17°C. Viðamiklar rannsóknir sem unnar voru fyrir Hrunamannahrepp á jarðhita í hreppnum hafa leitt í ljós að líkur eru á öflugum jarðhitakerfum á belti sem er um tveggja km breitt og teygir sig frá hálendisbrúninni við Tungufell eftir miðri tungunni milli Hvítár og Litlu-Laxár, allt suður fyrir Flúðir. Hvatamenn að þeim rannsóknum voru Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri og Hannibal Kjartansson hitaveitustjóri. Með þessar niðurstöður að leiðarljósi var ráðist í borun við Kópsvatn. 

Haukur Jóhannesson jarðfræðingur stjórnaði verkinu af hálfu Íslenskra orkurannsókna en Hannibal Kjartansson hitaveitustjóri á Flúðum af hálfu Hitaveitu Flúða.

Jarðborinn Saga í mynni Borgardals á Kópsvatni.