[x]
11. mars 2006

Góður árangur af borun í Kelduhverfi

Góður árangur er kominn af borun í Kelduhverfi.  Holan er  á eyðinu milli Bakkahlaups og Skálftavatns, og endaði hún í 610 m dýpi, og lýkur borverkinu nú um helgina. Orkuveita Húsavíkur og Kelduneshreppur standa að boruninni. Upp úr holunni streyma í sjálfrennsli um 17 l/s af 75°C heitu vatni, sem er ferskt og gott á bragðið enn sem komið er, og væntanlega úrvals hitaveituvatn fyrir Kelduhverfi. Með dælingu má ná 35-40 sekúndulítrum upp úr holunni. Holan er  á móts við þekkt jarðhitasvæði handan Jökulsár, en staðsett á grundvelli viðnámsmælinga sem verkkaupar fengu ÍSOR til að framkvæma á síðasta ári. Niðurstaða borunar kemur í sjálfu sér ekki á óvart en er einkar ánægjuleg. Holan verður látin sjálfrenna um nokkurn tíma og fylgst með hita-, seltu- og rennslisbreytingum. Síðan verður hún hitamæld í botn og sýni tekin af vatninu til efnagreininga.