[x]
29. ágúst 2019

Góður árangur af borun eftir heitu vatni á Laugum í Súgandafirði

Heitt vatn flæðir út í Súgandafjörð. Lokið er við borun vinnsluholu á Laugum í Súgandafirði fyrir hitaveitu Suðureyrar sem er í eigu Orkubús Vestfjarða. Holan var boruð með jarðbornum Nasa frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða. ÍSOR veitti jarðfræðiráðgjöf og sá um að staðsetja borholuna. 

Borholan varð 1127 m djúp, hún er fóðruð niður á 370 m dýpi og skar hún allstóra vatnsæð á 920–930 m dýpi. Skammtímaloftdæling úr holunni gaf góða raun og virðist ætla að gefa meira vatn en núverandi vinnsluholur á svæðinu hafa gefið. Þó er lítið hægt að gefa upp um afköst holunnar að svo stöddu þangað til langtímadæluprófun hefur verið gerð.
Síðustu ár hefur verið farið ítarlega yfir gögn um boranir á Laugum og síðustu ár vinnslusögunnar. Um tíma var til athugunar að vinna meira vatn úr núverandi vinnsluholum, LA-2 og LA-5, eftir hreinsun og dýpkun. Frá því var horfið þar sem aðskotahlutir eru í holunum. Vinnsla úr holu LA-2 hefur verið 10–12 L/s af 64–65°C heitu vatni en ekki er unnt að auka dælingu í holunni því þá fer hún að draga að sér saltara vatn. Úr holu LA-5 fæst um 57°C heitt vatn en hún hefur ekki verið notuð til vinnslu í nokkur ár vegna útfellingavanda. Frá árinu 2016 hafa verið boraðar alls átta grunnar rannsóknarholur á Laugum með það að markmiði að staðsetja betur uppstreymissprungu á svæðinu. Þegar rannsóknarboranir á suðausturhluta svæðisins gáfu ekki eins góða raun og vonast var eftir var sjónum aftur beint að svæðinu í kringum vinnsluholu LA-2 en hún sker sig úr með heitari æðar en í öðrum holum á samsvarandi dýpi. Hitamælingar benda einnig til að aðaluppstreymið sé nærri þeirri holu. Gengið hefur verið út frá því að jarðhitauppstreymi komi upp í gegnum misgengissprungu með norðvestlægri stefnu og má leiða að því líkur að hún sé með austlægari stefnu en áður var talið og fylgi þannig meira stefnu fjarðarins. Í lok árs 2018 lagði ÍSOR svo til á grundvelli rannsókna staðsetningu nýrrar vinnsluholu 30 m norðvestan við holu LA-2. Lagt var upp með að hitta á dýpri og vonandi aðeins heitari vatnsæðar en holur LA-2 og LA-5 hittu á ofar í jarðhitakerfinu. Einnig var ákveðið að fóðra holuna dýpra en var gert í LA-2 til að loka af kaldari og grynnri æðar.

ÍSOR hefur, ásamt því að leita að jarðhita með viðeigandi rannsóknum, einnig annast reglulegt eftirlit með efnasamsetningu heita vatnsins hjá hitaveitu Suðureyrar um langa hríð í samstarfi við Orkubú Vestfjarða.

Það er vert að óska íbúum á Suðueyri og Orkubúi Vestfjarða til hamingju með þennan árangur.

Borplan nýju vinnsluholunnar að Laugum í Súgandafirði.