[x]
24. maí 2006

Góð hitastigulshola á Eyvindarárdal

Holan var staðsett á síðasta ári af starfsmönnum ÍSOR þeim Kristjáni Sæmundssyni og Þórólfi Hafstað og er hún við Köldukvísl á Eyvindarárdal ofan Egilsstaða. Holan var hugsuð sem hitastigulshola en átti í leiðinni að nota hana til að kanna þykkt og vatnsgæfni lausra jarðlaga í árkeilu Köldukvíslar. Við borun fyrir skömmu kom í ljós að vatnsgæfni lausu lagana var lítil og fór mest í um 3 l/s. Eftir að komið var í fast berg fór vatnsmagn að aukast og komst í eina 10 l/s og virtist hitastig um 2.5 °C. Niðurstöður þessarar borunar bendir til þess að þarna sé kominn ákjósanlegur vatnstökustaður fyrir Egilsstaði. Bora þarf aðra holu sem hugsuð er og hönnuð sem vinnsluhola á svipuðum slóðum og dæla úr henni til að meta aðstæður einkum á útmánuðum þegar grunnvatnsstaða er lægst. Á myndinni má sjá Þórólf Hafstað beita aldagömlum aðferðum við að sannreyna vísindin.