[x]
26. janúar 2005

Geta komið stórar flóðbylgjur upp að ströndum Íslands?

Svarið við því er já. Mestu flóðbylgjur sem gera má ráð fyrir að komi upp að ströndum landsins munu orsakast af hruni í landgrunnsbrúnum meginlandanna sitt hvoru megin við Atlantshaf. Þekkt eru allmörg dæmi um slík framhlaup úr norsku landgrunnsbrúninni. Stærsta og best þekkta framhlaupið er Storegga-framhlaupið sem varð fyrir um 7.300 árum. Þá fór fram spilda sem var um 2500-3000 km3 og rann um 800 km til norðvesturs ofan í Ægis-djúpið. Þessu framhlaupi fylgdi flóðbylgja og hafa ummerki eftir hana fundist víða við Norður-Atlantshaf, m.a. í Skotlandi, Færeyjum og Noregi. Í Skotlandi var bylgjan um 5 m há út við stendur en náði 25 m hæð inni í þröngum og lokuðum fjörðum. Ekki hefur verið gerð leit að ummerkum um þessa flóðöldu hér á landi en ganga má að því sem vísu að þau muni finnast á Austfjörðum. Reikna má með að hæð hennar hafi orðið svipuð og í Skotlandi eða eilítið lægri. Síðast hljóp úr lanndgrunnsbrún Noregs fyrir um 4000 árum.