[x]
11. maí 2005

Gagnavefsjá Orkugarðs í forval til Nýmiðlunarverðlauna SÞ

Gagnavefsjá Orkugarðs  veitir almenningi aðgang og upplýsingar um gögn í vörslu ÍSOR og Orkustofnunar sem varða náttúrufar og nýtingu jarðrænna orkulinda.
Nýlega var tilkynnt að Gagnavefsjá hafi komist í forval vegna þátttöku í landskeppni Nýmiðlunarverðlauna Sameinuðu þjóðanna. Samkeppnin er að frumkvæði European Academy of Digital Media og er skipulögð og unnin undir merkjum Leiðtogafundar Sameinuðu Þjóðanna um upplýsingasamfélagið. Skipulagning er í höndum fulltrúa 168 landa í fimm heimsálfum og er meginmarkmiðið að brúa bilið milli þeirra sem skammt og langt eru komnir í að notfæra sér upplýsingatækni og efla gerð net- og nýmiðlunarefnis í heiminum. Tilnefningar til verðlaunanna eru í átta flokkum; opinber stjórnsýsla, heilsa, menntun, afþreying, menning, viðskipti, brúun menningarheima og vísindi en í þeim síðastnefnda tekur Gagnavefsjá þátt. Kynning á þeim fimmtán verkefnum sem komust í forval verður á sýningu þann 21. maí í Öskju - náttúrufræðahúsi HÍ, en þann sama dag verður jafnframt tilkynnt hvaða afurðir verða sendar áfram af Íslands hálfu í aðalkeppnina í Túnis í haust.