[x]
22. febrúar 2012

Fyrstu jarðhitaboranir á eyjunni Dóminíku lofa góðu

ÍSOR hefur ásamt Jarðborunum verið við rannsóknarboranir á eyjunni Dóminíku í Karíbahafi frá því í byrjun desember. Þetta eru fyrstu rannsóknarboranir á eyjunni. Jarðhiti hefur talsvert verið rannsakaður á Dóminíku og eru miklar vonir bundnar við að hægt verði að nýta hann.

Á eyjunni búa um 70 þúsund manns en stór hluti rafmagns eyjaskeggja er framleiddur með dísilvélum en 20-30% kemur frá vatnsafli.

Jarðborinn Sleipnir á holu LL-01 í Laudat á Dominíku. Ljósmynd Sigurður Sveinn Jónsson.

Borun fyrstu jarðhitaholunnar lauk fyrir um tveimur vikum með ágætum árangri. Borholan virðist vera þokkalega opin og ágætlega heit. Þetta eru jákvæðar vísbendingar um að vinnanlegur jarðhiti sé til staðar á Dóminíku. Vonast er til að hægt verði að nýta borholuna til raforkuframleiðslu. Eftir er að rennslisprófa holuna, en þær mælingar munu gefa mun ýtarlegri upplýsingar um hugsanlega nýtingu.

Jarðboranir hafa þegar hafið borun jarðhitaholu nr. 2. Áætlað er að holurnar verið þrjár. Jarðfræðingar, verkfræðingar, mælingamenn og jarðefnafræðingar frá ÍSOR sinna borholujarðfræði, mælingum, sýnatöku, umhverfisvöktun og almennri ráðgjöf, en alls verða um 10 manns á vegum ÍSOR viðriðnir borverkefnið hér heima og á staðnum. Einnig er mælingabíll og önnur tæki og tól frá ÍSOR á staðnum.

Verkefnið er fjármagnað af þróunarsjóði Frakka (AFD) og þróunarsjóði Evrópusambandsins (EDF), auk yfirvalda á Dóminíku.

 

Eldri fréttir:
Mælingabíll og rannsóknarstofa til Dóminíku.