[x]
24. júní 2014

Fyrsta vinnsluholan tilbúin og umhverfiseftirliti lokið á eyjunni Dóminíku

Blaðamannafundur er vinnsluholan á Dóminíku var opnuð og látin blása. Ljósmynd Siguður Sveinn Jónsson.ÍSOR hefur síðastliðin þrjú ár verið með sérfræðiþjónustu vegna jarðhitaborana á eyjunni Dóminíku í Karíbahafi. Því verkefni lauk nú um miðjan júnímánuð. Á Dóminíku er nú ein skáboruð vinnsluhola, 1506 metra djúp, ein um 1900 m djúp niðurrennslishola auk þriggja grannra rannsóknarholna sem eru 1500-1600 metra djúpar. Samanlagt er talið að þessar holur geti séð jarðvarmavirkjun fyrir gufu sem myndi geta annað allri raforkuþörf eyjarinnar.

Dóminíka er virk eldfjallaeyja með um 70 þúsund íbúa.  Raforka er að stórum hluta framleidd með dísilrafstöðvum en þriðjungur uppsetts afls kemur frá vatnsafli. Töluvert er um jarðhita á yfirborði og hafa ýmsir aðilar komið að rannsóknum þar undanfarin ár. Eftir þessar vinnsluboranir eru vonir til að nýta jarðhitann til rafmagnsframleiðslu í stað dísilrafstöðva.

ÍSOR og Jarðboranir hf. gerðu samning 2011 við stjórnvöld á eyjunni  um boranir og þjónustu vegna þeirra. Byrjað var á að bora þrjár grannar rannsóknarholur í desember 2011 og fram á mitt ár 2012.  Tókst ágætlega til og voru jákvæðar vísbendingar um að vinnanlegur jarðhiti væri til staðar. Ákveðið var að halda áfram með vinnsluboranir sem hófust í lok síðasta árs og lauk núna um miðjan júnímánuð. Jarðboranir hafa séð um boranir en ÍSOR hefur sinnt umhverfiseftirliti, jarðfræðiráðgjöf í tengslum við boranirnar og borholumælingum. Þá hafa sérfræðingar ÍSOR einnig metið afköst holnanna og rannsakað efnafræðilega eiginleika jarðhitavökvans og gufu í þeim. Um 10 sérfræðingar frá ÍSOR hafa að jafnaði tekið þátt í þessu verkefni, bæði hér heima og á Dóminíku.  Það eru jarðfræðingar, jarðeðlisfræðingar, verkfræðingar, mælingamenn og jarðefnafræðingar. Auk þess sendi ÍSOR, í fyrsta sinn, út sérútbúinn mælingabíl og færanlega rannsóknarstofu. Bæði mannskapur og tækjabúnaður fer nú til annarra starfa.

Verkefnið var fjármagnað af þróunarsjóði Frakka (AFD) og þróunarsjóði Evrópusambandsins (EDF), auk stjórnvalda á Dóminíku.