[x]
11. nóvember 2007

Fyrsta koltvísýringsvarmadælan á Íslandi

Fyrsta koltvísýringsvarmadælan hér á landi var sett upp á bænum Grýtubakka 1 við austanverðan Eyjafjörð, í ársbyrjun 2007. Ljósmynd Jónas Baldursson.Fyrsta koltvísýringsvarmadælan hér á landi var sett upp á bænum Grýtubakka 1 við austanverðan Eyjafjörð (Eco Cute frá Sanyo). ÍSOR sá um ráðgjöf og innkaup en Jónas Baldursson, landeigandi og húsasmiður, um uppsetningu varmadælunnar á heimili sínu. Frá 8. janúar 2007 hefur varmadælan gengið slysalaust og hefur nú þegar sparað umtalsverða raforku sem áður fór til hefðbundinnar rafhitunar. Varmadælan nýtir orku úr útilofti og varmaskipti eru við koltvísýring í lokuðu kerfi á yfirmarksástandi. Í yfirmarksástandi hefur koltvísýringurinn litla seigju og litla orku þarf til að knýja hraðvirka hringrás vinnslumiðilsins. Breyting var gerð á varmadælunni um miðjan október s.l. og vatnsvarmaskiptir settur við loftinntak varmadælunnar. Þannig er gerð einföld tilraun til að breyta loft/vatn varmadælu í vatn/vatn varmadælu. Í vatnskassann rennur 20°C heitt vatn sem gnægt er af úr borholu (nr. AA-01) á landareigninni. Eftir nokkra mánuði kemur í ljós hversu vel þessi breyting nýtist til raforkusparnaðar.

Almennt eru koltvísýringsvarmadælur taldar þjóna íslenskum aðstæðum vel, því hægt er að hita vatn upp í 70-90°C og þær virka án viðbótar rafhitunar við -15 til -20°C útihita (þó með aðeins lægri nýtingu). Hægt er að fá þessar varmadælur í ýmsum stærðum, a.m.k. frá 9-30 kWt. Aflstuðull (COP) þessara varmadæla er um 3, sem þýðir að fyrir tiltekið rafafl má fá þrefalt meira varmaafl.

Frekari upplýsingar um varmadælur má nálgast á vef Orkuseturs, m.a. skýrslu sem unnin var árið 2005 um varmadælur og hagkvæmni þeirra miðað við íslenskar aðstæður.

Ekki þarf að fara mikið fyrir búnaðinum, eins og  myndin frá Jónasi Baldurssyni sýnir