[x]
26. apríl 2015

Fulltrúar frá 85 þjóðum á ráðstefnu Alþjóðajarðhitasambandsins

Hluti af hópnum sem var á íslenska kynningarbásnum á WGC2015 ásamt Ragnheiði Elínu Árnadóttur ráðherra. Ljósmynd Ásgeir Eggertsson.Alþjóðajarðhitaráðstefnan, World Geothermal Congress, WGC2015, var haldin í Melbourne í Ástralíu dagana 19.-24. apríl 2015.  Það er Alþjóðajarðhitasambandið sem heldur þessa ráðstefnu sem fram fer á fimm ára fresti.

Ráðstefnan er stórviðburður innan jarðhitaheimsins og sækja hana jarðhitasérfræðingar, tækni- og verkfræðingar og aðrir forystumenn á sviði orkumála alls staðar að. Um 1600 manns voru skráðir að þessu sinni með rúmlega 1300 erindi frá 85 þjóðum. Sérfræðingar ÍSOR tóku virkan þátt, voru með 25 erindi um rannsóknir, tækniframfarir og þróun jarðhitamála frá Íslandi sem og erindi frá öðrum erlendum jarðhitasvæðum. Að auki áttu þeir aðild sem meðhöfundar að 6 greinum til viðbótar.

Öll erindin frá ráðstefnunni verður hægt að nálgast á vef Alþjóðajarðhitasambandsins.

Samhliða ráðstefnunni var sýning þar sem fjölmörg fyrirtæki kynntu sína starfsemi. ÍSOR, Orkustofnun, Landsvirkjun og Íslenski jarðvarmaklasinn, verkfræðistofurnar Efla, Mannvit og Verkís auk Jarðhitaskólans og orkuskólans Iceland School of Energy (innan HR) kynntu sína starfsemi sameiginlega á svæðinu.

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra var meðal þátttakenda á ráðstefnunni. Hún ávarpaði gesti í móttöku sem haldin var á vegum ráðuneytisins og Íslenska jarðvarmaklasans. Eins flutti ráðherrann ávarp við lokaathöfnina en þar tóku Íslendingar formlega við keflinu um að halda ráðstefnuna árið 2020. Íslendingar hafa þrisvar sótt um að halda ráðstefnuna, en fá loks þann heiður eftir fimm ár og er óhætt að segja að mikil eftirvænting ríki um að verða næstu gestagjafar. Íslenski jarðvarmaklasinn mun sjá um undirbúning ráðstefnunnar 2020 fyrir hönd Alþjóðajarðhitasambandsins.

Verðlaunahafar IGA fyrir bestu greinarnar og bestu PhD-ritgerðirnar. Ljósmynd Árni Hjartarson.Við lokaathöfnina voru einnig veitt verðlaun fyrir bestu fræðigreinarnar sem birtar hafa verið í ritrýndu vísindatímariti sl. fimm ár. Sérfræðingar ÍSOR fengu verðlaun fyrir tvær fræðigreinar árið 2014 og nú gafst tækifæri til að taka formlega á móti viðurkenningunum, jarðvísndamennirnir Knútur Árnason og Guðni Axelsson tóku á móti viðurkenningum sínum núna á ráðstefnunni. Sjá nánar frétt um viðurkenningarnar hér á vefnum.