[x]
1. desemeber 2004

Frumkvöðull í nýtingu jarðhita til iðnaðar hættir störfum

Þriðjudaginn 30. nóvember 2004 var drepið á vélum Kísiliðjunnar, henni lokað og rekstur lagður af. Blendnar tilfinningar eru meðal landsmanna og mikið skarð er höggvið í atvinnumöguleika í sveitarfélaginu með keðjuverkandi áhrif víða um land. Frá sjónarhóli jarðhitanýtingar er söknuður af þessu fyrirtæki. Kísiliðjan markar sess í sögu nýtingar þessarar mikilvægu auðlindar landsmanna. Árið 1966 var fyrirtækið stofnað og rekstur Kísiliðjunar hófst ári síðar. Ein af grunnforsendum rekstursins var nálægð við öflugt jarðhitasvæði í Bjarnarflagi, en jarðgufa frá borholum var notuð til þurrkunar, annarsvegar á hráefninu í framleisluferlinu og til að hita upp brennsluolíu á lokaframleiðslustigi. Marga má nefna til sögunnar sem komu að byggingu og rekstri Kísiliðjunar, en það skyggir ekki á neinn þó nafn Baldurs Líndals efnaverkfræðings sé dregið fram. Hann var mikill áhugamaður um nýtingu jarðhita á sem flestum sviðum og ein af hans hugmyndum var vinnsla kísilgúrs úr Mývatni og notkun jarðgufu til þurrkunar. Ýmis tæknileg verkefni þurfti að leysa vegna nýtingarinnar. Ennfremur reyndi á þrautseigju í gegnum náttúruhamfarir Kröfluelda. Þá opnuðust sprungur undir hráefnisþróm og skrifstofubyggingu verksmiðjunnar einnig urðu flestar borholur í Bjarnarflagi fyrir varanlegum skemmdum. Eftir að verksmiðjan hafði náð fullri stærð þá var framleiðslan 20–30 þúsund tonn á ári og voru notuð 10–11 tonn af gufu til þurrkunar á hvert tonn kísilgúrs. Vinnslan var sérstæð á heimsvísu, þar sem þetta var eina verksmiðjan sem vann kísilgúr úr ríkjandi vistkerfi. Annars staðar er hráefninu mokað upp úr námum á þurru landi. Alls var framleiðsla Kísiliðjunar í Mývatnssveit um 3% af heimsframleiðslu. Löngum hefur verið ágreiningur um réttmæti þess að nýta þykk setlög kísilþörunga á botni Mývatns, og náðist aldrei fullkomin sátt þar um. Það leiddi til ákveðinnar takmarkanna á vinnslu hráefnis sem stefndi í hráefnisþurrð innan fárra ára þegar ákveðið var fyrir rúmu ári að stöðva rekstur Kísiliðjunnar