[x]
5. janúar 2009

Freysteinn Sigurðsson (4. júni 1941 - 29. des. 2008)

Freysteinn Sigurðsson, jarðfræðingur á Orkustofnun, lést 29. desember síðastliðinn eftir stranga baráttu við krabbamein 67 ára að aldri.
Freysteinn Sigurðsson jarðfræðingur.

Freysteinn lauk stúdentsprófi  frá Laugarvatni 1959, þá nýorðinn 18 ára. Strax um haustið hélt hann til Þýskalands og hóf nám í jarðeðlisfræði  við háskólann í Mainz (Johannes Gutenberg Universität). Þar var hann til 1963, ekki samfellt þó því árið 1961 lenti hann í alvarlegu slysi sem setti verulegt strik í námsferilinn. Á árunum 1965-1975 stundaði hann svo jarðfræðinám við háskólann í Kiel (Christian Albrechts Universität) og lauk þaðan diploma-prófi í jarðvísindum.

Freysteinn Sigurðsson starfaði hjá Raforkumálastjóra og á Orkustofnun í áratugi. Strax árið 1958 var hann ráðinn sem aðstoðarmaður við mælingar og þar er líklegt að áhugi hans á jarðfræðum hafi kviknað. Á háskólaárunum var hann áfram sumarmaður við jarðhitarannsóknir og mælingar ár eftir ár og strax að námi loknu 1975 var hann ráðinn sem  fastur starfsmaður á Orkustofnun. Þá voru viðfangsefni hans meira í kalda vatninu en jarðhita, þ.e. verk tengd vatnajarðfræði, vatnafari, grunnvatni og neysluvatnsmálum. Í maí 1982 var hann ráðinn deildarstjóri á Vatnsorkudeild Orkustofnunar (VOD) yfir jarðfræðikortlagningu og hélt áfram sem slíkur á ROS (Rannsóknarsviði Orkustofnunar). Þann  1. febrúar 1999 fór hann síðan á ALD (Auðlindadeild Orkustofnunar). Þar var ábyrgðarsvið hans hagnýt jarðefni. Fyrstu rannsóknarskýrslur Freysteins sem skráðar eru á bókasafni Orkustofnunar eru frá 1964.

Freysteinn fór fremstur í flokki þeirra jarðvísindamanna sem lögðu stund á íslenska vatnajarðfræði og hafði allra manna gleggsta sýn yfir íslenskt vatnafar. Um það skrifaði hann ótal skýrslur og greinargerðir og einnig fræðilegar ritgerðir í vísindarit. Grunnvatn og lindir voru hugðarefni hans, uppruni vatnsins, rennslisleiðir neðanjarðar, rennslismagn og efnainnihald.  Enginn þekkti betur grundvallarlögmál þessara fræða. Hann átti auðvelt með að beita hvers kyns reikniformúlum máli sínu til stuðnings, Darcy-lögmálið þekkti hann út í ystu æsar og allar afleiður þess. Hann var ótrúlegur reikningshaus og gat hann reiknað hin flóknustu dæmi í huganum með undraverðum hraða og öryggi.  Enn klárari var hann þó í efnafræðinni og þeim hvörfum sem eiga sér stað milli vatns og bergs. Hann safnaði sýnum úr lindum, brunnum og borholum víðsvegar og lét efnagreina. Þannig varð til afbragðs gagnasafn og á grundvelli þess gerði hann fjölmörg kort sem sýna efnagildi í grunnvatnsstraumum landsins. 

Á síðari árum vann hann mikið að vatnsverndarmálum og lagði gjörva hönd á lagabálka um vatn og vatnsvernd. Hann var snjall nýyrða- og hugtakasmiður og íslenskaði fjölmörg heiti og hugtök í fræðum sínum,  grunnhugtök vatnsverndarinnar, brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði, eru t.d. frá honum runnin.

Freysteinn var sérstaklega heiðraður á norrænni ráðstefnu um neysluvatn á vegum Norðurlanda-deildar IWA (International Water Association) sem haldin var í Reykjavík sumarið 2006. Freysteini hlotnaðist svokölluð „Pump Handle Award“ ársins 2006, sem veitt eru fyrir einstakt framlag í þágu betra og heilnæmara neysluvatns.

Freysteinn var mikill félagsmálamaður og baráttujaxl, jafnt fyrir hag og kjörum stéttar sinnar sem og náttúruvernd. Hann var formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) 1986-1988 og formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags (HÍN) 1990-2001, einn af stofnendum Oddafélagsins og stjórnarmaður þar frá upphafi, stjórnarmaður í Landvernd til dauðadags, svo eitthvað sé nefnt.

Freysteinn Sigurðsson var óvenjulegur maður og ógleymanlegur öllum sem kynntust honum. Hann var afburða sögufróður og gat sett fyrirvaralaust á heilu fyrirlestrana um Sturlungaöld, stríðsárasögu Þýskalands, miðaldasögu Evrópu og  helgra manna sögur, svo ekki sé minnst á Herúla og þátt þeirra í landnámi Íslands, og menningaráhrif fram eftir öldum.  Hann var einnig óvenju hagyrtur og manna fljótastur að kasta fram kviðlingum og stökum en hirti sjaldan um að skrifa kveðskapinn niður, lét aðra um það. Aðaleinkenni þessa skáldskapar var kerskni og alvöruleysi. Þó gat hann einnig brugðið fyrir sig viðkvæmri ljóðrænu, einkum í náttúrulýsingum og náði oft miklu flugi.  Hann samdi ófá skemmtikvæði og afmælisbragi og söng þá á mannfundum enda var hann hrókur alls fagnaðar og söngmaður góður, hafði áheyrilega barítónrödd. Fræg varð vísa sem hann skildi eftir sig í gestabók í fjallakofa norðan Vatnajökuls. Þar hafði hann verið á ferð með verkfræðingum og hlustað daglangt og náttlangt á hin ýmsu tilbrigði við virkjanir á þessu svæði. Þá setti hann saman lítið vers til að stríða þeim og hinni óspilltu náttúru til varnar. Ómar Ragnarsson fréttamaður rakst síðan á kveðskapinn þegar hann gisti sama kofa nokkru síðar, og það var ekki að sökum að spyrja, vísan varð uppistaðan í rokufrétt í Sjónvarpinu og olli talsverðum hvelli í orkugeiranum.

Starfsmenn ÍSOR þakka Freysteini eftirminnilegar og gefandi samvinnu- og samverustundir, sumir hverjir til margra áratuga, og senda fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur. Með honum er genginn einn litríkasti persónuleikinn í skrautlegum hópi íslenskra jarðvísindamanna fyrr og síðar.

Þórólfur Hafstað jarðfræðingur og Freysteinn Sigurðsson jarðfræðingur.