[x]
15. nóvember 2005

Fréttir af borun RH-02 á Reykjum í Hjaltadal

Undanfarið hefur staðið yfir borun holu RH-02 á Reykjum í Hjaltadal í Skagafirði. Hola RH-01 var boruð árið 1978 og er liðlega 600 m djúp og gefur um 25 l/sek af um 60°C heitu vatni sem veitt er að Hólum í Hjaltadal. Vegna mikillar uppbyggingar að Hólum þarf meira vatn og var því ráðist í að bora aðra holu á Reykjum á vegum Skagafjarðarveitna. Borun holu RH-02 hefur gengið vel og er borinn að ná sama dýpi og fyrri hola. Nú (15. nóvember) eru komnir um 15 l/sek af 61°C vatni í holuna en þrýstingur er a.m.k. 15 bör en í RH-01 er þrýstingur 25 bör. Vatnið kemur í millilögum og enn er ekki búið að skera aðalvatnsæðina. Staðsetning holunnar miðaði við að skera misgengið/ganginn, sem talið er að heita vatnið sé tengt, á 700-800 m dýpi. Hola RH-02 er um 50-60 metrum sunnan við holu RH-01. Ræktunarsamband Flóa og Skeiða sér um borverkið.