[x]
25. október 2007

Frétt um ÍSOR á forsíðu Morgunblaðsins

Í tengslum við útrás íslenskra orkufyrirtækja hefur mikið verið rætt um skort á sérfræðingum á sviði jarðhita. Á forsíðu morgunblaðsins 25. október er fjallað um þessi mál og rætt við Ólaf G. Flóvenz.   Fréttin er birt hér í heild. Missa fólkið í bankana  Tilfinnanlegur skortur er  á sérfræðingum á sviði orkurannsókna  hér á landi, að sögn Ólafs G.  Flóvenz, forstjóra Íslenskra orkurannsókna  (ÍSOR).  „Aðalvandamálið undanfarið  hefur verið að fjármálageirinn hefur  sogað til sín svo mikið af raungreinafólki,“  sagði Ólafur. Það er  ekki síður verkfræðin en jarðvísindin  sem hafa séð á eftir sérfræðingum  yfir í fjármálafyrirtækin, að  sögn Ólafs. Hann sagði að í fjármálaheiminum  væru menn að  horfa á allt annað launakerfi og  kjör en bjóðast í jarðvísindum eða  verkfræði.  Hjá ÍSOR starfa nú um 80  manns, flestir sérfræðingar. Ólafur  sagði að þar skorti nú starfsfólk  með ákveðna sérmenntun. „Það er  kannski fyrst og fremst á þeim  sviðum sem við höfum verið að  missa fólk inn í bankageirann,“  sagði Ólafur og nefndi að þeir hafi  t.d. misst sérfræðinga á sviði jarðeðlisfræði  og forðafræði. En hvað  gerir slíka sérfræðinga eftirsóknarverða  í fjármálaheiminum? „Allir  sem kunna að reikna virðast vera  eftirsóttir í banka,“ sagði Ólafur.  Möguleiki að ráða erlent fólk  Þrátt fyrir skort á sérfræðingum  og að ekki séu svo ýkja margir  námsmenn að mennta sig í þeim  fræðigreinum sem eru undirstaða  jarðfræðirannsókna og orkurannsókna  kvaðst Ólafur líta það sem  jákvætt tækifæri taki útrás á sviði  jarðhitanýtingar flugið. Menn verði  aðeins að gæta þess að bregðast af  ábyrgð við stóraukinni eftirspurn  eftir sérhæfðu starfsfólki. Í því  sambandi nefndi Ólafur nauðsyn  þess að þjálfa upp nýtt fólk og eins  þann möguleika að sækja starfsfólk  til annarra landa. Það gæti vel  gengið ef þetta fólk fengi að starfa  undir stjórn færustu sérfræðinga  og margfaldaði þannig afköst  þeirra. Hins vegar muni það ekki  ganga að slást um þá fáu sérfræðinga  sem við eigum eða ætla sér að  láta þá vinna öll störfin.  Nú er fólk frá ÍSOR við störf í  Djibouti í Afríku en undanfarna  mánuði hafa starfsmenn ÍSOR  starfað í Þýskalandi, Ungverjalandi,  Níkaragva og Guadeloupe. Í  Níkaragva var verið að vinna fyrir  Þróunarsamvinnustofnun Íslands.  Ólafur taldi að auðveldlega mætti  afla ÍSOR fleiri verkefna erlendis,  en það væri ekki gert því ekki væri  mannafli til að sinna fleiri verkefnum.