[x]
31. ágúst 2005

Framfarir í orkumálum

Ríkisstjórnin tók þá stóru ákvörðun í gær að taka þátt í djúpborunarverkefninu (IDDP). Ríkisstjórnin ætlar að fjármagna verkefnið til jafns við orkufyrirtækin á næstu árum.  Með því stuðlar ríkisvaldið að því að hinn raunverulegi orkuforði landsins sé endurmetinn. Hér er um stórt framfaraskref að ræða sem ÍSOR fagnar mjög, og skýra stefnu í orkumálum þjóðarinnar.  Talið er að háhitaauðlindin kunni að vera stórlega vanmetin og er djúpborunarverkefninu ætlað að ganga úr skugga um það.  Niðurstaða þess mun leiða í ljós hvort unnt verður að taka margfalt meiri orku upp úr borholum á háhitasvæðunum en hingað til hefur verið unnt.

Stofnað var til djúpborunarverkefnisins fyrir fimm árum af Hitaveitu Suðurnesja, Landsvirkjun, og Orkuveitu Reykjavíkur ásamt Rannsóknasviði Orkustofnunnar (síðar ÍSOR). ÍSOR hefur veitt séfræðiþjónustu við verkefnið frá byrjun, ásamt sérfræðingum frá orkufyrirtækjunum sjálfum: VGK hf, Jarðborunum hf og Raunvísindastofnun Háskólans. Orkufyrirtækin kostuðu gerð ítarlegrar hagkvæmniskýrslu sem skilað var árið 2003. Orkufyrirtækin hafa ásamt Orkustofnun látið vinna að undirbúningi og könnun á því hvort afla mætti fjármagns erlendis frá til borframkvæmda og rannsókna.  Snemma í verkefninu var stofnað til fjölþjóðlegs samstarfs um IDDP verkefnið. Sótt var m.a. um styrki til vinnufunda 2001 og 2002 til ICDP (International Scientific Continental Drilling Program) sem fengust í bæði skiptin.  Fjölþjóðlegir vinnufundir voru haldnir hér og ráðgjafhópnum SAGA komið á laggirnar, stýrinefnd IDDP (djúprýni) til halds og trausts.  Fyrir liggja 50-60 rannsóknartillögur frá um 100-150 vísindamönnum víðsvegar að úr heiminum. Erlendu vísindarannsóknirnar munu að mestu verða fjármagnaðar úr erlendum sjóðum sem vísindamennirnir munu leita til. 

Leit að fjármagni til djúpboruninnar sjálfrar hefur til þessa skilað þeim árangri að ICDP mun leggja verkefninu til 1,5 M USD til borana á árunum 2006-2007, og bandaríski rannsóknasjóðurinn NSF (National Science Foundation) mun leggja verkefninu til um 3 M USD 2005-2008.  Orkufyrirtækin ásamt Orkustofnun, fyrir hönd ríkisins, munu hvert um sig legga álík háa upphæð til framkvæmdana og nauðsynlegustu grunnrannsóknum á jarðhitageyminum.  Auk þess er fyrirhugað að sækja um fjárstyrk til Evrópusambandsins til vinnslurannsókna á árunum 2008-2009.  Framfarasporið sem ríkisstjórnin steig í gær er stórt og mun að öllum líkindum verða til þess að djúpborunarverkefnið fer í gang samkvæmt fyrirliggjandi áætlun. Á meðfylgjandi yfirlitsmynd má  sjá og lesa um helstu þætti IDDP verkefnisins. Að öðru leyti er vísað til heimasíðu  verkefnisins sem tengd er þessari vefsíðu.