[x]
25. október 2012

Fráfall starfsfélaga

Jens Tómasson jarðfræðingur

Þann 24. október lést Jens Tómasson jarðfræðingur á 88. aldursári. Jens fæddist þann 22. september 1925 og ólst upp í Reykjavík, tók stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík og sigldi síðan til náms við háskólann í Osló þar sem hann lauk Cand.Mag. prófi og síðar Cand. Real. gráðu í jarðfræði 1962.

Hann hóf störf hjá Raforkumálastjóra 1963 og á jarðhitasviði frá árinu 1964. Jens sérhæfði sig í rannsóknum á eiginleikum há- og lághitakerfa, og notaði til þess öll gögn sem fengust úr borholum svo sem jarðfræði, ummyndun, vatnsæðar og örvunum borhola. Hann var deildarstjóri borholujarðfræði frá 1979, og stýrði verkefnum Orkustofnunar sem unnin voru fyrir Hitaveitu Reykjavíkur á höfuðborgarsvæðinu af mikilli elju. Sú borholujarðfræði sem í dag er stunduð á ÍSOR er í mörgu byggð á starfi hans.

Eftir Jens liggur fjöldi greina og skýrsla um jarðhita og er enn vitnað í greinar hans sem hluta af grunnþekkingu okkar á jarðhitakerfum. Jens var glaðsinna og skemmtilegur félagi og var oft kátt á hjalla í návist hans. Minnumst við sérstaklega hláturs hans í gamanmálum sem varð þess ætíð valdandi að allur þingheimur tók undir.