[x]
5. maí 2006

Forstjóri ÍSOR á fundum í New York

Ólafur Flóvenz, forstjóri ÍSOR sótti fund sem haldinn var í höfuðstöðvum Sameinuðu Þjóðanna í New York í gær. Tilgangur fundarins var að kynna jarðhita og nýtingarmöguleika hans, einkum í þróunarlöndum. Fundurinn var haldinn í tengslum við ársfund nefndar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (CSD), sem nú stendur yfir, en í ár og á næsta ári er þar lögð höfuðáhersla á möguleika þróunarríkja til orkuöflunar. Ásamt Ólafi sátu fundinn fulltrúar frá  Enex hf. og jarðhitaskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna.  Kynntu þeir möguleika á nýtingu jarðvarma og svöruðu fyrirspurnum. Fyrir milligöngu íslenskra stjórnvalda eiga íslenskir sérfræðingar ennfremur fund í bandaríska þinginu í Washington í dag, þar sem þingmönnum og starfsliði þeirra verður kynntur árangur Íslendinga í jarðhitamálum og áform um frekari nýtingu vetnis, að því er kemur fram á fréttavef Morgunblaðsins í dag.