[x]
3. nóvember 2006

Forseti Íslands heimsækir Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, hlýðir á Hjalta Franzson útskýra rannsóknir á Hellisheiði Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, heimsótti í dag, 3. nóvember, Orkugarð og kynntist þar starfsemi, verkefnum og framtíðarhorfum Orkustofnunar (OS) og Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR). Heimsóknin hófst með því að orkumálastjóri, Þorkell Helgason, og forstjóri Íslenskra orkurannsókna, Ólafur G. Flóvenz, kynntu stofnanirnar og verkefni þeirra á fundi með stjórnendum og sérfræðingum OS og ÍSOR. Í kjölfarið fór forsetinn í skoðunarferð um Orkugarð þar sem honum voru kynnt valin verkefni svo sem aðgerðir í orkusparnaði, vöktun vatnsfalla m.a. vegna náttúruvár, jarðhitarannsóknir í Hengli, hafbotnsrannsóknir, starfsemi Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, loftslagsrannsóknir með jöklaborun og mælitækni við borholurannsóknir. Verkefnin voru meðal annars valin með tilliti til sérstaks áhuga forsetans á tengslum orkumála og loftslagsbreytinga. Að lokinni kynningunni ávarpaði forsetinn starfsfólk á almennum fundi og fór þar í ítarlegu máli yfir viðfangsefni sín á sviði orku- og umhverfismála á alþjóðavettvangi. Eins og kunnugt er hefur forsetinn í sívaxandi mæli látið að sér kveða á alþjóðvettvangi til að vekja athygli á sérstöðu Íslands í orkumálum, sjálfbærum og hreinum orkulindum okkar og með hvaða hætti við gætum orðið öðrum leiðarljós í þessum efnum. Forsetinn skýrði frá fjölda funda og ráðstefna á þessu sviði sem hann hefur sótt eða beitt sér fyrir. Forsetinn sér fyrir sér að á Íslandi gæti orðið helsti vettvangur alþjóðlegrar umræðu á þessu sviði, staður þar sem forvígismenn jafnt í stjórnmálum sem og atvinnulífi koma saman. Þar verði fjallað um og leitað lausna á þeim vanda sem einna brýnast er að leysa á 21. öldinni, þ.e. hvernig afla eigi mannkyninu orku um leið og dregið verði stórlega úr útblæstri gróðurhúsaloftegunda. Starfsfólk gerði góðan róm að máli forsetans, sem svaraði greiðlega fjölbreyttum spurningum starfsmanna.