[x]
11. ágúst 2017

Fjölþjóðlegt rannsóknarverkefni í Surtsey

ÍSOR er þátttakandi í einu stærsta rannsóknarverkefni Surtseyjar frá upphafi. Tilgangur þess er að varpa ljósi á myndun og þróun eldfjallaeyja með því að samþætta eldfjallafræði, jarðeðlisfræði, jarðefnafræði, mannvirkjajarðfræði og örverufræði. Verkefnið hófst í byrjun ágúst.

Ætlunin er að bora tvær holur í eyjunni og taka borkjarna, annan 200 metra langan lóðréttan og hinn úr 300 metra langri skáholu. Rannsaka á innri byggingu og þróun jarðhita í eyjunni sem dæmi um skammlíft jarðhitakerfi í rekbelti úthafsskorpu. Tilvist og fjölbreytileiki örvera við mismunandi hitastig í innviðum eyjarinnar verða enn fremur könnuð. Sýni verða rannsökuð til að fá innsýn í landnám örvera og hlutverk þeirra í Surtsey. Að lokinni borun yrði lóðrétta holan notuð um áratugi sem neðanjarðarrannsóknarstöð til vöktunar, sýnatöku og tilrauna, sem munu lýsa langtímaþróun í samspili örvera, jarðsjávar og bergs.

Verkefnið kallast SUSTAIN og er það styrkt af fjölmörgum alþjóðlegum sjóðum, m.a. frá Þýskalandi, Noregi, Bandaríkjunum og Íslandi. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands og  Marie Jackson, dósent við Háskólann í Utah í Bandaríkjunum stýra verkefninu. Fjölmargir vísndamenn, um 50 manns, koma að þessari rannsókn. Vísindafólkið kemur frá Íslandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Noregi, Svíþjóð, Bretlandi, Ítalíu, Nýja Sjálandi og Ástralíu. Leiðandi rannsakendur í verkefninu af Íslands hálfu eru auk Magnúsar Tuma, Andri Stefánsson prófessor í jarðefnafræði við Háskóla Íslands, Viggó Þór Marteinsson örverufræðingur frá Matís, Tobias B. Weisenberger jarðefnafræðingur frá ÍSOR og Kristján Jónasson jarðfræðingur  frá Náttúrufræðistofnun Íslands. 

Hægt er að fylgjast nánar með rannsókninni á eftirfarandi vefsíðum og á facebook síðu Surtseyjar:
https://surtsey50years.utah.edu/
http://surtsey.icdp-online.org