[x]
9. júní 2005

Fjölnýting jarðhitans í Hrísey

Þann 8. júní sl.var undirrituð viljayfirlýsing um samstarf, sem miðar að því að úr jarðhitanum í Hrísey verði unnin öll orka sem þar er þörf á. Jarðhitinn í eyjunni hefur um langt skeið verið nýttur til húshitunar, en vonir standa til að þróa megi búnað sem framleiðir rafmagn úr honum og hugsanlega orkubera á farartæki. Auk þess eru uppi hugmyndir um að í fjölnýtingu jarðhitans geti falist rekstur ylstrandar, sem gæti eflt ferðaþjónustu í eyjunni. Jarðhitinn í Hrísey er svonefndur “lághiti”, sem gerir aðrar kröfur til búnaðar til raforkuframleiðslu en “háhiti”. Vonast er til að sú þróun sem þetta samstarf gerir ráð fyrir geti nýst við svipaðar aðstæður annars staðar, bæði hér á landi og erlendis.Að þessu verkefni koma auk Íslenskra orkurannsókna: Akureyrarbær, Norðurorka hf., Auðlindadeild Háskólans á Akureyri, LIH Consulting AS í Danmörku, Exorka ehf. og Útrás ehf.Fjölnýting jarðhitans í Hrísey er hluti verkefnisins “Sjálfbært samfélag í Hrísey”, sem hleypt var af stokkunum í apríl 2003 með stuðningi iðnaðarráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins. Á vegum þess verkefnis var þann 7. júní sl. stofnað Markaðsráð Hríseyjar. Markaðsráð Hríseyjar mun m.a. kynna og markaðssetja Hrísey fyrir ferðamenn sem sjálfbært samfélag.Á meðfylgjandi mynd, sem tekin var við undirritun viljayfirlýsingarinnar, eru f.v.: Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Þórhallur Bjarnason (Útrás), Björn Gunnarsson (Auðlindadeild H.A.), Bjarni Gautason (ÍSOR) og Franz Árnason forstjóri Norðurorku.