[x]
22. september 2005

Fjármögnun fyrstu djúpborunarholunnar tryggð

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti allt að 300 mkr. þátttöku í djúpborunarverkefninu á stjórnarfundi í gær. Þar með er fjármögnun við borun fyrstu djúpu borholunnar tryggð, því stjórn Landsvirkjunar hafði gert svipað samþykkt í júní síðastliðnum, og síðan samþykkti íslenska ríkistjórnin svipaða þátttöku á fundi 30. ágúst (sbr. frétt hér neðar á heimasíðunni). Stjórn Hitaveitu Suðurnesja hafði á síðastliðnu ári samþykkt að leggja til eina vinnsluholu á Reykjanesi til djúpborunar, en vinnsluholur á Reykjanesi eru sem kunnugt er 2-3 km djúpar og kosta 300-400 mkr hver. Íslenska ríkið og orkufyrirtækin þrjú eru því með fjórðungshlut hvert um sig. Síðan hafa fengist um 300 mkr til viðbótar frá erlendum rannsóknasjóðunum ICDP (International Continental Drilling Program) og NSF (National Science Foundation) í Bandaríkjunum, og verður þeim fjármunum að mestu varið í kjarnaborun. Þannig mun NSF til dæmis fjármagna þátttöku kjarnabors rannsóknaborfyrirtækinu DOSECC Ltd. (Deep Observation and Sampling of Earths Continental Crust) sem er í eigu bandarískra háskóla og fyrirtækja.

Fyrirhugaðir boráfangar eru þannig að fyrst er áformað að heilfóðra tiltæka vinnsluholu á Reykjanesi í botn og dýpka hann síðan í 4 km síðla á næsti ári. Sú hola fær síðan að hitna og blása áður en hún verður heilfóðruð í botn og síðan dýpkuð síðla árs 2007 með samfelldri kjarnatöku niður í allt að 5 km dýpi með umræddum kjarnabor. Hola verður svo blástursprófuð á árunum 2008-2009. Yfirlit um djúpborunarverkefnið má skoða hér og nánar á http://www.iddp.is.