[x]
11. apríl 2012

Evrópski framhaldsnemadagurinn í jarðhita (European geothermal PhD-day)

Jarðfræðingar frá ÍSOR kynntu mastersverkefni sín á ráðstefnu evrópskra framhaldsnema í jarðhita (European geothermal PhD-day) í Pisa á Ítalíu á dögnum.

Jarðhitavirkjun Lardarello á Ítalíu. Á ráðstefnunni kynntu þær Margrét Th. Jónsdóttir og Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir mastersverkefnin sín í jarðfræði sem unnin eru í samstarfi ÍSOR og HÍ. Margrét sagði frá verkefni sínu sem fjallar um vökvabólurannsóknir í jarðhitakerfinu í Kröflu og Sandra sagði frá hluta af mastersverkefninu sínu sem er um kristalgerð og efnasamsetningu leirsteinda í jarðhitakerfinu á Hellisheiði.

Þetta var í þriðja sinn sem Evrópski framhaldsnemadagurinn í jarðhita var haldinn. Alls tóku um 70 manns frá 15 löndum þátt í deginum og kynntu masters- og doktorsverkefni sín. Daginn eftir, hélt hópurinn í feltferð um sveitir Toscana í 23°C hita og sólskini. Lardarello jarðhitavirkjunin var heimsótt auk þess sem hópurinn kynnti sér matargerð í Toscanahéraði, m.a. ostagerð með hjálp jarðhitans.