[x]
29. júní 2007

ENGINE fundur í Reykjavík 2. - 5. júlí

ÍSOR er þátttakandi ásamt 35 öðrum stofnunum og fyrirtækjum í Evrópu og víðar í verki sem styrkt er af Evrópusambandinu er nefnist ENGINE (ENhanced Geothermal Innovative Network for Europe). Það snýst um að draga saman og miðla upplýsingum um jarðhitaleitar- og nýtingartækni (http://engine.brgm.fr). Röð funda „workshop" er haldið til að fjalla um aðgreinda þætti og í næstu viku verður í Reykjavík fjallað um jarðhitaboranir. Fundur undir heitinu „Drilling cost effectiveness and feasibility of high-temperature drilling" verður dagana 2-5 júlí í Orkugarði og eru sjötíu þátttakendur skráðir.Stóraukinn áhugi er nú á nýtingu jarðhita um heim allan og eru jarðhitaboranir og árangur af þeim lykilatriði. Á fundinum verður fjallað um hvernig bæta megi árangurinn og miðla reynslu um það sem vel hefur tekist. Handbók þar að lútandi um „Best Practices" verður eitt af því sem ENGINE mun skilja eftir sig. Kynning á jarðhita er stór þáttur í ENGINE og verið er að leiða saman stofnanir, rannsóknarsjóði, og fulltrúa atvinnulífsins til að meta stöðuna og leggja á ráðin um þróunarverk í nýtingu og tækni. Sverrir Þórhallsson verkfræðingur á ÍSOR fer fyrir verkþætti ENGINE um boranir og forðafræði, Work Package 4, ásamt Thomas Kohl frá Sviss.