[x]
9. september 2015

Engin tengsl milli krabbameina og búsetu á jarðhitasvæðum

Í septemberhefti Læknablaðsins árið 2015 er grein eftir Helga Tómasson, prófessor í hagrannsóknum og tölfræði við Háskóla Íslands. Hún ber heitið „Háhitasvæði og krabbamein: misskilin tölfræði“.  Í greininni er fjallað um þá tölfræði sem notuð var í greinum Aðalbjargar Kristbjörnsdóttur og Vilhjálms Rafnssonar þar sem ályktað var að fylgni væri milli nýgengis krabbameina og búsetu á háhitasvæðum.

Helgi Sigurðsson og Ólafur G. Flóvenz höfðu áður í grein í Læknablaðinu gagnrýnt harðlega greinar þeirra Aðalbjargar og Vilhjálms, bæði aðferðarfræðina og þær ályktanir sem þau drógu um þessa fylgni.

Grein Helga er nokkuð fræðileg og kannski ekki auðskilin þeim sem ekki þekkja sæmilega vel til stærðfræði. En í lokaorðum sínum segir Helgi um grein Aðalbjargar og Vilhjálms:

„Í því ljósi verður að álykta út frá greininni að engin tengsl séu á milli búsetu á jarðhitasvæðum og einstakra krabbameina. Dreifing HR-gilda sem sýnd eru í töflu III í greininni um háhitasvæðið gefur ekkert annað til kynna.“