[x]
15. apríl 2021

Endurskoðuð greinargerð um afmörkun landgrunns Íslands

Kröfugerð Íslands um afmörkun ytri marka landgrunnsins á Reykjaneshrygg utan 200 sjómílna. Kortagerð Albert Þorbergsson ÍSOR.Í lok mars 2021 skiluðu íslensk stjórnvöld inn endurskoðaðri greinargerð Íslands til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna í New York. Greinargerðin felur í sér endurskoðaða kröfugerð Íslands um afmörkun ytri marka landgrunnsins á Reykjaneshrygg utan 200 sjómílna. Greinargerðin nær yfir stærstan hluta Reykjaneshryggjar en undanskilinn er norðausturhluti hans  þar sem hann skarast við Hatton-Rockall svæðið (sjá meðfylgjandi kort). Þetta landgrunnssvæði var hluti af þeirri greinargerð sem Ísland skilaði inn árið 2009 og sérstök undirnefnd landgrunnsnefndarinnar fjallaði um árin 2013-2014. Landgrunnsnefndin skilaði svo tillögum sínum 2016 þar sem fallist var á upphaflegar kröfur Íslands í Ægisdjúpi (austan við Ísland), auk þess sem sameiginleg tillaga Íslands og undirnefndarinnar innan 350 sjómílna á Reykjaneshrygg var samþykkt, en talin var þörf á frekari jarðfræðilegum útskýringum til að staðfesta að Reykjaneshryggur gæti talist náttúrulegur hluti íslenska landgrunnsins í skilningi 76. greinar Hafréttarsáttmálans, svo hægt væri að réttlæta tilkall utan 350 sjómílna.

ÍSOR, í samvinnu við Háskóla Íslands, hefur undanfarin ár unnið að því að renna frekari stoðum undir jarðfræðilega tengingu frá landi út eftir Reykjaneshrygg, þar sem áhrif heita reitsins undir Íslandi spilar stórt hlutverk. Auk þess var ítarleg landslagsgreining gerð til að afmarka það svæði sem landgrunnið nær yfir. Utanríkisráðuneytið hefur unnið þétt með okkur og leitt þessa vinnu.
Vonast er til að landgrunnsnefndin geti tekið greinargerðina fljótlega til athugunar þótt reikna megi með einhverri bið þar sem heimsfaraldurinn Covid-19 hefur hamlað störfum hennar undanfarið ár.

Næstu verkefni í afmörkun landgrunnsins eru á norðausturhluta Reykjaneshryggjar og á Hatton-Rockall svæðinu. Vinna á þessum svæðum hófst á síðasta ári og stefnt er að því að klára hana 2023 en með því klárast afmörkun landgrunnssvæða Íslands.

Sjá nánari frétt á vef Stjórnarráðs Íslands. Hægt er að smella á þrívíddarkortið hér að neðan til að skoða það frá öllum hliðum.

  Smellið á myndina til að skoða hana í þrívídd. Kortagerð Albert Þorbergsson ÍSOR