[x]
10. janúar 2018

Einar Tjörvi Elíasson látinn

Einar Tjörvi Elíasson

Einar Tjörvi Elíasson, fyrrverandi yfirverkefnisstjóri Rannsóknasviðs Orkustofnunar, forvera ÍSOR, lést á Landspítalanum að morgni 9. janúar, rétt orðinn 88 ára.

Einar kom til starfa sem yfirverkefnisstjóri jarðhitadeildar Orkustofnunar árið 1985 en sú deild varð að Rannsóknasviði sömu stofnunar árið 1997 (ROS) og síðan að ÍSOR árið 2003.

Einar Tjörvi fæddist 7. janúar 1930 í Reykjavík. Hann var sonur hjónanna Elíasar Guðmundssonar, skipstjóra á Akranesi, og Sigríðar Viktoríu Einarsdóttur.

Einar Tjörvi ólst upp á Akranesi. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1950 og stundaði læknisnám við Háskóla Ísland næstu tvö árin en hélt þá til Skotlands í vélaverkfræðinám. Hann lauk B.Sc. Hon-prófi frá Glasgow University 1958 og Ph.D.-prófi þaðan 1967. Einar Tjörvi var lektor við Strathclyde University í Glasgow 1961-65. Hann var verkfræðingur hjá Síldarverksmiðjum ríkisins 1965-67 og yfirverkfræðingur hjá Kísiliðjunni 1967-69. Þá sneri hann til baka til Strathclyde-háskólans í Glasgow og var þar dósent til ársins 1975 er hann kom heim til Íslands sem yfirverkfræðingur og síðar framkvæmdastjóri Kröfluvirkjunar til 1985. Þá var Einar ráðinn yfirverkefnisstjóri hjá jarðhitadeild Orkustofnunar. Því starfi gegndi hann til ársins 2000 er hann fór á eftirlaun sjötugur að aldri.

Í starfi sínu sem yfirverkefnisstjóri kom hann að fjölmörgum rannsóknar- og ráðgjafarverkefnum auk þess sem hann var einnig um skeið framkvæmdastjóri hlutafélagsins Orkint sem fór með erlend verkefni jarðhitadeildar.

Eftir að Einar fór á eftirlaun sinnti hann áfram ráðgjafastörfum í jarðhitaverkefnum og kennslu víða um heim næstu, m.a. fyrir ÍSOR. Hann var afkastamikill fræðimaður og skrifaði fjölmargar greinar á sviði jarðhitarannsókna og jarðhitaverkfræði í ýmis fræðirit auk ráðstefnuhefta.

Einar Tjörvi gegndi ýmsum félags- og trúnaðarstörfum. Hann var árum saman fyrirlesari við Jarðhitaskólann og sendikennari við jarðhitastofnun háskólans í Auckland á Nýja-Sjálandi árið 1982 og var eftirsóttur fyrirlesari. Hann sat í stjórn bandaríska jarðhitafélagsins (GRC) árin 1986-89 og var skipaður í vinnuhóp GRC til að undirbúa stofnun Alþjóða jarðhitasambandsins (IGA) 1988. Einar Tjörvi sat í stjórn IGA til 1995 og sinnti margvíslegum störfum fyrir sambandið. Hann fékk heiðursviðurkenningu frá IGA á Alþjóðajarðhitaþinginu í Melbourne vorið 2015 fyrir framlag sitt til stofnunar sambandsins og störf hans fyrir það.

Hann starfaði í Lionshreyfingunni árum saman og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum, m.a. sem formaður Lionsklúbbs Akureyrar og ritari Fjölnis. Hann starfaði í skátahreyfingunni og var gildismeistari St. Georgsgildisins í Reykjavík og varalandsgildismeistari St. Georgsgilda. Hann var einnig virkur innan Verkfræðingafélags Íslands og Jarðhitafélags Íslands.

Eftirlifandi eiginkona Einars Tjörva er Inger Johanne Elíasson sjúkraþjálfari og eignuðust þau þrjú börn en Einar Tjörvi átti fyrir einn son.

Að leiðarlokum er samstarfsfólki hans hjá ÍSOR efst í huga þakklæti fyrir að hafa átt langa samleið með þeim heiðursmanni og einstaklega góða samstarfsmanni sem Einar Tjörvi var alla tíð. Um leið sendum við ættingjum hans og vinum innilegar samúðarkveðjur.