[x]
31. október 2017

Efling tengsla rúmensks og íslensks jarðhitafólks

Nýverið var jarðvarmasamstarf Rúmena og Íslendinga eflt með fræðslu- og kynningarheimsóknum. Í báðum löndunum, Rúmeníu og Íslandi, eru miklar jarðhitaauðlindir, þótt eðli þeirra sé mismunandi. Hingað til hefur samstarf landanna að veruleguleyti verið í formi þjálfunar jarðhitasérfræðinga frá Rúmeníu, í gegnum Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Eins hafa fyrirtæki og stofnanir hér á landi tekið þátt í minni jarðhitaverkefnum í Rúmeníu, en þeirra stærst hefur tengst rekstri stórrar hitaveitu í NV-hluta landsins.

Í sumar kom 15 manna sendinefnd frá Rúmeníu hingað til lands í þriggja daga heimsókn. Í hópnum voru bæði fulltrúar sveitarstjórna og opinberra stofnana og var áherslan lögð á að kynnast lághitanýtingu. Hópurinn sat fyrirlestra hjá ÍSOR og fræddist m.a. um jarðhitarannsóknir, hvaða aðferðum væri beitt við jarðhitaleit og um nýtingu jarðhitans. Tveir dagar fóru svo í skoðunarferðir um jarðhitastaði á SV-horni landsins. Þá var hitaveita borgarinnar skoðuð hjá Orkuveitu Reykjavíkur, sem og jarðhitasýningin í Hellisheiðarvirkjun. Rúmenarnir heimsóttu einnig gróðurhús, kynntust af eigin raun baðmenningu Íslendinga og annarri jarðhitanýtingu. 

Í september sl. fóru síðan tveir jarðhitasérfræðingar frá ÍSOR til Rúmeníu. Þeir dvöldu aðallega á tveimur svæðum. Annars vegar í Ilfov-héraði við Búkarest og hins vegar í Oradea í NV-hluta landsins. Í Oradea er umfangsmesta jarðhitanýting í landinu. Sérfræðingar ÍSOR tóku þátt í fjölbreytilegum fyrirlestrum og umræðufundum auk þess sem farið var í skoðunarferðir, bæði í Ilfov-héraði og um Oradea og nágrenni.

Ánægja og þakkir er það sem eftir situr og eru aðilar verkefnisins mun fróðari um jarðhita í landi mótaðilans. Vonast er til að áframhald verði á samvinnu landanna, á grundvelli þeirra persónulegu tengsla sem verkefnið myndaði. Eins er vonast til að augu rúmensku aðilanna hafi opnast fyrir hinum miklu möguleikum jarðhitanýtingar. Þá lærðu íslensku aðilarnir mikið um eðli og nýtingu jarðhita við allt aðrar jarðfræðilegar aðstæður, en þeir þekkja hér á landi. 

Verkefninu var ýtt úr vör að frumkvæði aðila í Rúmeníu og er það styrkt af RONDINE-áætlun Styrktarsjóðs EFTA (EEA Grants).