[x]
19. maí 2004

Doktorspróf

Þann 30.  apríl s.l. varði Árni Hjartarson, jarðfræðingur, PhD- ritgerð við Kaupmannahafnarháskóla. Ritgerðin, sem er á ensku, nefnist Skagafjarðarmislægið og jarðsaga þess. Aðalleiðbeinandi í verkefninu var Asger Ken Pedersen, dósent við Jarðfræðisafnið í Kaupmannahöfn, en hann er að góðu kunnur á Íslandi, bæði fyrir rannsóknir hérlendis og auk þess sat hann lengi í stjórn Norrænu eldfjallastöðvarinnar. Andmælendur voru Paul Martin Holm, lektor við jarðfræðideildina í Höfn, prófessor Harald Furnes frá háskólanum í Bergen og prófessor Ole Humlum við Óslóarháskóla.

Ritgerðin samanstendur af 7 sjálfstæðum vísindagreinum sem hver um sig fjallar um afmarkaða þætti í jarðfræði Skagafjarðar eða um hugmyndir sem af henni leiða. Auk þeirra fylgir henni viðauki sem er  ítarleg lýsing á byggingu jarðlagastaflans og stórt jarðfræðikort. Gagnanna, sem verkið byggist á, var aflað í rannsóknum sem Orkustofnun gerði á virkjanasvæðum í Skagafjarðardölum fyrir Landsvirkjun. Þær beindust einkum að kortlagningu jarðlagastaflans og jarðtæknilegum atriðum sem varða mannvirkjagerð. Gögnin buðu þó upp á mun meiri umfjöllun þannig að í dokrorsverkefninu er kafað djúpt í jarðsögu svæðisins myndunarhætti.

Jarðsögu héraðsins má í grófum dráttum skipta í fjóra kafla. Fyrsti hlutinn er myndun svæðisins í gosbeltum Norðurlands á tertíer, fyrir 5-9 milljónum ára. Þeirri uppbyggingu lauk þegar svæðið hafði rekið út úr gosbeltunum. Þá náðu roföflin yfirhöndinni og frumdrættir núverandi landslags tóku að mótast, m.a. dalakerfi Skagafjarðar. Þriðji kaflinn hófst fyrir um tveimur milljónum ára en þá kom eldvirkni upp að nýju í héraðinu, bæði inni í Skagafjarðardölum, úti á Skaga og í firðinum sjálfum. Sumir dalanna hálffylltust af hraunum. Þessi umbrot stóðu í um milljón ár en síðan tók að draga úr eldvirkninni og roföflin urðu allsráðandi á ný. Fjórði og síðasti kafli jarðsögunnar spannar undangengin milljón ár eða svo. Á þeim tíma hafa vötn og jöklar náð að rjúfa burtu megnið af hinum ungu gosmyndunum og móta landslagið í núverandi horf.