[x]
31. mars 2006

Deildarstjóraskipti á Jarðfræðideild ÍSOR

Nú um mánaðarmótin lætur Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur af störfum sem deildarstjóri jarðfræðideildar ÍSOR eftir langt og afar færsælt starf. Kristján hóf störf hjá Jarðhitadeild Orkustofnunar, forvera ÍSOR, árið 1960. Hann lauk doktorsprófi í jarðfræði frá Háskólanum í Köln árið 1966 og var aðalviðfangsefni hans var kortlagning á jarðfræði Hengilsins. Kristján hefur verði með afkastamestu jarðfræðingum landsins. Hann hefur kortlagt drjúgan hluta þess í meiri smáatriðum en áður hafði verið gert og með vísindastörfum sínum lagt þung lóð á vogarskálar nútímaskilnings á jarðfræði landsins og þeim öflum sem móta hana. Megináherslan í starfi Kristjáns hefur þó falist jarðhitaleit vítt og breitt um land. Er óhætt að segja að enginn einn maður hafi átt jafndrjúgan þátt í þeim mikla árangri sem náðst hefur á því sviði á Íslandi og Kristján. Fáar eru þær hitaveitur þar sem hann hefur ekki komið að málum. Eru Kristjáni fluttar bestu þakkir fyrir ánægjuleg samskipti og árangursrík störf. Þrátt fyrir að Kristján láti nú af störfum deildarstjóra mun hann starfa áfram á ÍSOR sem sérfræðingur í jarðhitamálum og jarðfræði. Við deildarstjórastarfinu tekur nú Ingibjörg Kaldal, jarðfræðingur. Hún lauk cand real prófi í jarðfræði frá Háskólanum í Bergen árið 1976 og hóf síðan störf við jarðfræðikortlagninu á Vatnsorkudeild Orkustofnunar með ísaldarjarðfræði sem sérsvið. Árið 1997 var jarðfræðistarfsemi Vatnsorku- og Jarðhitadeilda Orkustofnunar sameinuð í Rannsóknarsvið Orkustofnunar (ROS) sem árið 2003 varð að ÍSOR. Ingibjörg varð fljótlega aðstoðardeildarstjóri jarðfræðideildar ROS og síðar staðgengill forstjóra ÍSOR.