[x]
26. október 2005

Dæluprófun að Reykjum í Fnjóskadal

Eins og kunnugt er hefur verið ákveðið að leggja hitaveitu frá jarðhitasvæðinu við Reyki í Fnjóskadal að sumarhúsabyggðinni á Illugastöðum.  Einnig er í skoðun að leggja hitaveitu alla leið til Grenivíkur. Hluti af undibúningi þessa verks er dæluprófun á vinnsluholunni RF-7 að Reykjum í Fnjóskadal. Til þessa  hefur jarðhitinn að Reykjum verið nýttur til ylræktar og húsahitunar á Reykjum I og Reykjum II. Sjálfrennsli úr holu RF-7 hefur séð þessum notendum fyrir nægilegu vatni. Hins vegar er nauðsynlegt að reyna að átta sig á hvernig svæðið bregst við langtímadælingu úr vinnsluholunni og er dæluprófuninni ætlað að svara því. Dæluprófunin hófst 13. september sl. eftir að starfsmenn Norðurorku komu fyrir dælu í vinnsluholunni Rf-7 seinni hluta ágústmánaðar. Fylgst hefur verið með vatnsborðsbreytingum í vinnsluholunni og 3 eftirlitsholum í grenndinni. Einnig hafa verið tekin sýni reglulega af jarðhitavatninu til rannsókna. Verkið er unnið í nánu samstarfi ÍSOR og Norðurorku og hefur Guðmundur Hafsteinsson bóndi á Reykjum II verið til aðstoðar við mælingar. Fyrstu niðurstöður eru lofandi um afköst jarðhitakerfisins. En prófuninni er ekki lokið. Mynd 1.  Horft til SA að borholuskúr (grænn) og afloftunartanki (grár) ásamt rafstöð og olíutanki við holu RF-7 á Reykjum í Fnjóskadal Mynd 2.  Horft til N að borholuskúr og afloftunartanki við holu RF-7 á Reykjum í Fnjóskadal. Í forgrunni sést toppur á holu RF-6