[x]
10. desemeber 2003

Borundur á Þeistareykjum

Um þessar mundir er langt komið með að bora holu ÞG-2 á Þeistareykjum og er hún önnur rannsóknarholan fyrir Þeistareyki ehf., en ÍSOR (áður Orkustofnun) hefur haft veg og vanda af rannsóknum og veitt jarðhitaráðgjöf. Jarðborinn Sleipnir frá Jarðborunum hf. hefur borað báðar holurnar.

Sá fáheyrði atburður átti sér stað þegar borað var fyrir vinnslufóðringu með 12 1/4" krónu, að komið var niður í tómarúm á 309-319 m dýpi og fékk það nafnið gjáin. Nauðsynlegt var að þétta ginnungagapið áður borað væri dýpra. Til að byrja með voru notaðar hefðbundnar aðferðir til að fylla upp í gjánna, en ekki sást högg á vatni þrátt fyrir að tugir rúmmetra af sementseðju og þéttiefnum færu niður. Astæður í gímaldinu voru kannaðar eins og unnt var. Víddarmæling sýndi hámarksútslag (yfir 30") á um 10 m löngum kafla auk þess var hitinn á vatninu er flæddi þar um líklega nálægt 200°C. Gripið var til þess ráðs að setja niður möl og hræra í henni með sementseðju og tókst að lokum að þétta gjánna nægilega til að halda áfram borun. Alls fóru niður í holuna 130 m3 af möl og rúmlega 150 tonn af sementi auk ýmissa þéttiefna. Borun hélt síðan áfram niður á 618 m dýpi, vinnslufóðringin sett niður og hún steypt á fullnægjandi hátt.