HS Orka er að láta bora þrítugustu og fjórðu háhitaholuna á Reykjanesi, holu RN-34, en það er stærsti bor Jarðborana, Þór, sem notaður er til verksins. RN-34 er niðurdælingarhola. Stefnt er að því að dæla allt að 100 L/s niður holuna og komast í samband við náttúrulegar aðrennslisæðar jarðhitakerfisins til þess að skila vatni til baka inn í kerfið.
Sérfræðingar ÍSOR sáu um að staðsetja þessa nýju holu. Hún er NV við Sýrfell og boruð af sama borplani og hola RN-33. Holan var forboruð fyrir jól en í dag hófst 2. áfangi borunarinnar, búið er að bora 350 m. Til stendur að holan verði um 2000 til 2500 m djúp.
Mælingavakt frá ÍSOR hefur verið á holunni í um vikutíma. Fastar vaktir jarðfræðinga hófust í dag þar sem safnað verður upplýsingum um jarðfræði, ummyndun, lekt og fleira.
Háhitahola hefur ekki verið boruð á landinu síðan haustið 2013 þegar hola RN-33 var boruð.