[x]
19. desemeber 2003

Borun á Þeistareykjum lokið

Borun holu ÞG-2 á þeistareykjum lauk laugardaginn 13. desember þegar komið var niður í 1723 m dýpi. Framkvæmdin getur engan vegin fallið undir hefðbundin borverk. Til að ljúka öllum þremur áföngunum þurfti sértækar aðgerðir. Í fyrsta áfanganum þurfti að eyða nokkrum dögum til að þétta leka svo hægt væri að ljúka borun fyrir öryggisfóðringu og koma henni fyrir. Við borun fyrir vinnslufóðringu í öðrum áfanga var komið niður í helli eða gjá á 309 m dýpi og ekki var hægt að bora dýpra öðruvísi en að fylla upp í það ginnungagap. Eftir tæpan hálfan mánuð var búið að setja niður um 130 m3 af möl og um 150 m3 af sementseðju ásamt ýmsum þéttiefnum án þess að tekist hefði að þétta. Aftur á móti var hægt að bora áfram niður í ásættanlegt fóðringardýpi á 617 m án þess að dropi skilaði sér upp til yfirborðs. Ekki var búið að bora marga metra í vinnsluhlutanum þegar fyrsta æðin var skorin og allt skolvatn tapaðist, en það gerðist á 657 m dýpi. Eftir það kom ekkert upp úr holunni af því sem dælt var niður eða því sem losað var við dýpkun. Á 1723 m var stoppað enda holan vel lek og gataður leiðari settur niður, sem var hengdur neðst í vinnslufóðringuna. Við þrepaprófun í lokin var lektin metin og mældist ádælingastuðullinn 10-12 l/s á bar. Svarf kom upp fyrstu metrana og gáfu ummyndunarsteindir til kynna hita yfir 230°C. Í lok jarðlagamælinga fyrir niðursetningu leiðara var krakað upp svarf af holubotni og benti ummyndun til þess að hiti væri að lágmarki 250°C neðan 1700 m. Verkið var unnið fyrir Þeistareyki ehf. Borverkið annaðist Sleipnir frá Jarðborunum hf., en ÍSOR sá um jarðhitaráðgjöf og eftirlit.