[x]
26. júní 2007

Borun lokið í Öndverðarnesi.

Frá borsvæðinu í Öndverðarnesi, vinnsluholan ÖN-9.Nýlega lauk borun vinnsluholu fyrir Orkuveitu Reykjavíkur í Öndverðarnesi í Grímsnesi.
Þar eru þrjár vinnsluholur, sem allar taka vatnið fremur grunnt, ofan u.þ.b. 300 m dýpis. Í aðalvinnsluholunni, ÖN-29, hefur orðið kólnun um nokkrar gráður frá því hún var tekin í notkun. Nú er dælt úr henni 25-30 l/s af 81°C  heitu vatni.
Tilgangur með nýrri holu var að sækja vatnið dýpra, en ekki var búist við heitara vatni en rúmlega 90°C miðað hita í borholum og efnahita.
Vatnsmiklar æðar komu í holuna fyrst á 840 m dýpi og neðan 900 m. Hitamæling sýndi að vatn í þeim er 120°C. Holan gefur í sjálfrennsli (gosi) um 30 l/s. Fullnaðarprófun hefur ekki verið gerð.

Sérfræðingar ÍSOR ákváðu borstað út frá niðurstöðum fyrri borana sem sýndu um 45° austur-hallandi uppstreymistungu. Trölli, bor Ræktunarsambands Flóa og Skeiða, boraði holuna.