[x]
1. apríl 2005

Borun jarðhitaholu á Heimaey

Eins og mörgum er kunnugt á og rekur Hitaveita Suðurnesja raf- og hitaveitu í Vestmannaeyjum. Heitt vatn til húshitunar  fæst frá samblandi af orku frá  rafskautakatli, fiskimjölsverksmiðjum og sorpeyðingastöð. HS ákvað nýverið að láta reyna á hvort ekki finndist nýtanlegur jarðvarmi á þessari eldfjallaeyju. Fékk hún ÍSOR til liðs við sig og var hola staðsett á sunnanverðri Heimaey við hlíðarfót Helgafells. Staðsetningin tók meðal annars mið af nágrenni við fornar aðfærsluæðar kviku (bergganga) sem upp kom í Helgafelli og nýlegu Eldfelli. Borinn Sleipnir frá Jarðborunum hf. hóf sjálfa borun holunnar (HH-8) 5. mars. Holan var boruð niður í 250 m þar sem hún var fóðruð, og svo boruð áfram niður í 800 m. Verið er nú í byrjun apríl að ganga frá vinnslufóðringu holunnar niður í 770 m dýpi. Í framhaldi verður vinnsluhluti holunnar væntanlega boraður niður á um 2000 m dýpi í leit að jarðvarma.   Fróðlegt hefur verið að fylgjast með jarðlögum, sem borað hefur verið í gegnum, niður í 800 m dýpi, og er jarðlagskipan og tengslin við gosmyndanir Vestmanneyja sýndar á meðfylgjandi mynd.