[x]
17. ágúst 2003

Borun á Hellisheiði

Orkuveita Reykjavíkur stendur fyrir borun tveggja rannsóknarholna á Hellisheiði í sumar og annast ÍSOR rannsóknir og jarðhitaráðgjöf fyrir OR vegna borananna. Borun fyrri holunnar, HE-9 í 1604 m dýpi lauk um 20. júní en borun þeirrar síðari, HE-8, hófst 28. júní og lokadýpi var náð þriðjudaginn 22. júlí. Holan varð 2508,3 m djúp en stefnt var á 2500 m dýpi. Þar með var holan orðin dýpsta háhitahola landsins, en metið átti hola RN-12 á Reykjanesi sem er 2507 m djúp. Eftir nokkurra daga örvunaraðgerðir og mælingar var ákveðið að dýpka holuna. Boraðir voru 300 metar í viðbót og var lokadýpi náð að morgni 2. ágúst. Holan er 2808 m djúp og sem fyrr dýpsta hola á háhitasvæði hérlendis. Unnið var við mælingar og niðursetningu leiðar dagana á eftir og var vinnu við holuna lokið föstudaginn 8. ágúst þegar mastur borsins var fellt.