[x]
10. maí 2006

Borun á Árskógsströnd skilar árangri!

Síðustu vikur hefur verið borað eftir heitu vatni á Birnunesborgum við vestanverðan Eyjafjörð. Markmiðið er að tryggja Hitaveitu Dalvíkur meira vatn. Sem stendur er ein vinnsluhola á Birnunesborgum og er vatn úr henni nýtt fyrir byggðina á Árskógsströnd. Nú hefur nýja holan hitti á gjöfula vatnsleiðandi sprungu og þar með skilað góðum árangri. Holunni var valinn staður á grundvelli jarðvísindarannsókna ÍSOR sem m.a. fólu í sér segulmælingar til að leita að göngum og brotum, jarðfræðikortlagninu og mælingar á hitastigli. Hafa því báðar vinnsluholurnar sem boraðar hafa verið á Árskógsströnd borið árangur sem telst mjög gott og má fyrst og fremst þakka vönduðum undirbúningsrannsóknum. Borun hófst fyrir réttum 3 vikum og í gærkvöldi (8. maí) á 20. verkdegi  tapaðist allt skol úr holunni þegar æðar á rúmlega 540 m dýpi voru skornar. Síðan þá hefur holan verið dýpkuð nokkuð og er beitt svokallaðri sogborun, sem tryggir að allt vatn og svarf berst upp úr holunni. Margi tugir sekúndulítra af heitu vatni berast nú frá holunni, en það vatn er blanda af köldu vatni sem dælt er niður  eftir borstrengnum til að kæla krónuna og heita vatnsins sem berst úr áðurnefndum æðum. Á myndinni er Þorsteinn Björnsson  veitustjóri á Dalvík að kanna hita vatnsins. Borverkið er unnið af Jarðborunum h.f.  og er jarðborinn Saga notuð til verksins.